Skoðun

Mig langar að vera með

Illugi Jökulsson skrifar
Ég ætla að bjóða mig fram til stjórnlagaþingsins sem haldið verður á næsta ári. Ástæðan fyrir framboðinu er fyrst og fremst sú að mig langar ekki að standa afsíðis þegar ráðum verður ráðið um skipan samfélags okkar á 21. öldinni.

Mig langar að taka þátt í að skapa samfélaginu umgjörð sem getur komið í veg fyrir að það verði framar leiksoppur spillingarafla í stjórnmálum og/eða viðskiptalífi.

Mig langar að taka þátt í að semja leikreglur sem efla lýðræði í landinu og auka möguleika fólks á að hafa eftirlit með stjórnarathöfnum, stórum sem smáum. Sú leyndarhyggja sem alltof lengi hefur ráðið ferðinni í íslenskri stjórnsýslu átti sinn þátt í hruninu, og hún verður að hverfa. Ný stjórnarskrá getur orðið öflugt vopn til að berja niður leyndarhyggjuna, klíkuskapinn og duttlungaræðið sem hefur orðið okkur svo dýrt.

Mig langar að taka þátt í að semja þann texta þar sem íslenska þjóðin sjálf setur fram það sem hún telur mikilvægast í samfélaginu í framtíðinni. Sjálfur mun ég beita mér fyrir því að þar verði öflug og afdráttarlaus ákvæði sem heimili aldrei að gengið verði á rétt fólk til jafnréttis, tjáningarfrelsis og mannsæmandi lífs. Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru kjörorð frönsku byltingarinnar, og þau geta enn gagnast okkur, en í viðbót eiga að koma skilningur, velferð og gegnsæi.

Mig langar að taka þátt í að koma því á hreint í eitt skipti fyrir öll að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar eigi líka að vera í sameiginlegri eigu hennar, og hún eigi því öll að njóta arðsins af þeim. Mig langar að verða fulltrúi á þingi þar sem fulltrúar þjóðarinnar koma saman til að semja framtíð sína – en fulltrúum hagsmunaaðila og feyskinna stjórnmálaafla verði haldið úti.

Mig langar að vera með í að semja þann texta sem vonandi getur orðið íslenskri þjóð innblástur og von um betra líf, en ekki einungis leiksoppur lagatækna. Texta sem er skýr og greinilegur og vonandi fallegur, og hefur – umfram allt – raunverulega merkingu í eyrum almennings.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×