Bandaríska stórblaðið New York Times fjallaði hinn 25. þessa mánaðar um einstæðan áhrifamátt Clintons fyrrverandi forseta. Hann nær jafnvel til veitingastaða. Ef Clinton borðar á einhverjum matsölustað kemur fólk þangað í kippum og biður um það sama og forsetinn borðaði.
Þetta virðist smitast yfir á aðra meðlimi fjölskyldunnar. Chelsea Clinton dóttir forsetahjónanna borðaði á dögunum á veitingastað í Hong Kong. Daginn eftir kom maður og keypti stólinn sem hún hafði setið á.
New York Times minnist á heimsókn Clintons á Bæjarins bestu um árið. Með fréttinni fylgir mynd sem Gunnar V. Andrésson ljósmyndari tók af Clinton borðandi fyrir framan Bæjarins bestu.
Það var raunar Gunnar sem stakk því að afgreiðslustúlkunni að bjóða Clinton í mat. Hún hrópaði á eftir forsetanum Best Hot Dogs in the world. Clinton sneri sér þá að Gunnari, brosti og sagði Why not?