„Með því að þiggja boðið er ég að leggja blessun yfir hjónaband samkynhneigðra sem gengur gegn stefnu Miðflokksins," sagði Jenis av Rana í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar en hann neitar að sitja til borðs með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Jónínu Leósdóttur, í hátíðarkvöldverði sem fer fram í kvöld. Ástæðan er sú að þær eru samkynhneigðar.
Jenis sagði í viðtali við færeyska fjölmiðla að koma Jóhönnu til Færeyja væri ögrun við kennisetningar Biblíunnar.
Jenis er formaður hins kristilega Miðflokks í Færeyjum en þar eru íhaldssamar kennisetningar Biblíunnar í hávegum hafðar.
Lögmaður Færeyja, Kaj Leó Jóhannesen, auk formanns Þjóðveldisflokks Færeyja, Högni Hoydal, hafa gagnrýnt Jenis fyrir ummælin.
Báðir segja þeir að Jenis ætti að skammast sín fyrir framkomuna gagnvart forsætisráðherra ríkis sem hafi ávallt komið fram við Færeyinga og færeyska þjóð sem jafningja.
Þá sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og samflokksmaður Jóhönnu að ummælin væru Jenis til minnkunar en hefðu engin áhrif á samskipti þjóðanna.