Skoðun

Kosið um málefni eða traust?

Stefán Gíslason skrifar
Nú er sá tími þegar frambjóðendur kynna sig og ræða við kjósendur um helstu áherslur sínar í aðdraganda forsetakosninga. Í samtölum við fólk hef ég orðið var við að sumum finnast áherslurnar óljósar, menn treysti svo sem alveg þessu fólki, en stefnumálin séu bara ekki nógu skýr. En hvers konar stefnumál er tekist á um í kosningum sem þessum?

Forseti Íslands á ekki að taka afstöðu í einstökum málum sem fjallað er um á vettvangi stjórnmálanna. Þess vegna ætti forsetaframbjóðandi ekki að hafa það á stefnuskrá sinni að beita sér fyrir inngöngu eða ekki inngöngu í ESB, hækkun eða lækkun barnabóta, lækkun eða hækkun skatta, leiðréttingu á skuldastöðu heimila, né neinu öðru sem eðli málsins samkvæmt er í verkahring Alþingis og ríkisstjórnar. Á stefnuskrá forsetaframbjóðenda hljóta að vera allt öðruvísi mál. Þar getur maður vænst þess að finna klausu um það hvernig frambjóðandinn vill sjá forsetaembættið þróast, um sambandið milli forsetans, Alþingis og ríkisstjórnar og um samband forsetans við þjóðina, svo eitthvað sé nefnt.

Hlutverkaskiptingin milli forseta Íslands annars vegar og stjórnmálamanna hins vegar þarf að vera eins skýr og kostur er. Annað er ávísun á upplausn og óvissu um stjórnarfar landsins. Stefnuskrá forsetaframbjóðenda hlýtur að taka mið af þessu, nema ef þeir hafa misskilið stjórnskipunina.

Þegar grannt er skoðað snúast forsetakosningar ekki fyrst og fremst um málefni. Þær snúast miklu fremur um traust. Forseti Íslands þarf að hafa þann vilja, þá hæfileika og þá einlægni sem þarf til að ávinna sér traust stjórmálamanna, hvar í flokki sem þeir standa. Það getur hann ekki gert ef hann tekur afstöðu með sumum þeirra gegn öðrum. Sömuleiðis þarf forsetinn að hafa þann vilja, þá hæfileika og þá einlægni sem þarf til að ávinna sér traust fólksins í landinu, óháð póstnúmerum, stétt og stöðu.

Í forsetakosningunum 30. júní þurfum við að velja okkur leiðtoga sem við treystum, leiðtoga allrar þjóðarinnar, leiðtoga sem getur glaðst með okkur þegar vel gengur og syrgt með okkur á erfiðum tímum. Við þurfum einlægan leiðtoga með hjartað á réttum stað. Þóra Arnórsdóttir er efni í slíkan leiðtoga.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×