Ásdís Hjálmsdóttir hefur verið til skoðunar hjá læknum vegna ökklameiðsla sem hún varð fyrir í mars á síðasta ári.
Ásdís hefur hugsað vel um ökklann á síðasta tímabili og vildi ganga úr skugga um að hann væri ekki lengur til ama, eftir að hafa tognað í liðbandi á sínum tíma. Hún fékk jákvæðar niðurstöður og þarf ekki að fara í aðgerð.
„Það sást ekkert á myndunum en ég var hrædd um að meiðslin myndu taka sig upp þegar ég myndi byrja að æfa á nýjan leik,“ sagði Ásdís við Vísi.
„En þetta er alls ekki að hrjá mér á neinn hátt. Ég hef verið að binda um ökklann en er nú hætt því og hef ekki fundið fyrir neinu.“
