Makedónía og Tékkland eru bæði komin á blað í A-riðli eftir að liðin skildu jöfn í dag, 24-24.
Tékkar höfðu eins marks forystu í hálfleik, 11-10, en Makedónía náði frumkvæðinu í síðari hálfleik þökk sé Kiril Lazarov. Hann skoraði alls tólf mörk í leiknum, þar af sex fyrstu mörk sinna manna í síðari hálfleik.
Tékkarnir voru þó aldrei langt undan og var mikil spenna í leiknum á lokamínútunum. Pavel Horak fór þá mikinn fyrir Tékka en hann skoraði sex af síðustu sjö mörkum þeirra í leiknum.
Horak jafnaði metin þegar rúm mínúta var eftir og Makedónía hélt í sókn. Filip Mirkulovski lét verja frá sér þegar fjórtán sekúndur voru eftir og því fengu Tékkar tækifæri til að skora sigurmarkið.
Tékklandi var dæmt aukakast sem Filip Jicha tók eftir að leiktíminn rann út. Skotið var hins vegar varið af Borko Ristovski og þar við sat.
Horak skoraði átta mörk fyrir Tékkland og Jicha sex. Petr Stochl varði 21 skot í markinu og átti stórleik.
Danmörk og Austurríki, lið Patreks Jóhannessonar, eigast við í A-riðli í kvöld. Bæði lið unnu leiki sína á sunnudaginn.
Handbolti