„Þetta er samsýning þar sem áhersla er á iðn- og vöruhönnun og óhætt að segja að hér kennir ýmissa grasa,“ segir hönnuðurinn Hanna Dís Whitehead sem er ein af aðstandendum sýningar sem verður opnuð í Hannesarholti í dag klukkan 20.
Ásamt Hönnu Dís eru hönnuðirnir Rúna Thors, Petra Lilja, Vík Prjónsdóttir og sænski hönnunarmiðillinn Summit í Hannesarholti. Öll eru þau með mismunandi verk til sýnis.
Vík Prjónsdóttir og sænski hönnuðurinn Petra Lilja taka höndum saman og frumsýna hátækniprjónateppi unnið út frá goðsögninni um Medúsu.
„Þetta er í raun listaverk og eins og prentuð mynd, Sjón er sögu ríkari í þessum efnum,“ segir Hanna Dís sem sjálf sýnir sína eigin hönnun sem nefnist Fortíð í nútíð.
„Þar er ég að velta fyrir mér hvernig við mundum nota hluti úr steinöld í nútíðinni. Við Rúna Thors hönnum svo saman undir merkinu Whitehorse og í ár eru við með svokallaða kökustimpla til sýnis.“
Sænski hönnunarmiðillinn Summit verður með ferðasjóðsverkefnið sitt á sýningunni en Summit er hönnunar- og arkitektúrhlaðvarp sem gefur einnig út bækur. Blaðamenn á þeirra vegum ætla að selja skissur frá fimm þekktum sænskum hönnuðum og verður ágóðinn af sölunni veittur einum íslenskum hönnuði sem hann á að nýta sér til að fara á Stockholm Design Week árið 2015.
„HönnunarMars er viðburður sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli enda tækifæri fyrir okkur að ná til almennings, hitta aðra sem starfa í sama geira og mynda tengslanet,“ segir Hanna Dís sem hlakkar til daganna framundan.
Nánari upplýsingar um HönnunarMars og yfirlit um alla viðburði má finna á síðunni honnunarmars.is.
Hátækniprjón og steinaldarhlutir í nútímabúning
