Þórunn Hannesdóttir á glæsihestinum Austra frá Flagbjarnarholti sigraði örugglega og skaut öllum strákunum ref fyrir rass í úrslitunum.
Þórunn átti brekkuna og var klappað lof í lófa fyrir sýningu sína. Áhorfendur létu ekki leiðindaveður trufla sig og mættu í Sprettshöllina til að hvetja sitt fólk áfram, eins og sjá má á meðfylgjandi myndasyrpu.

1. Þórunn Hannesdóttir / Austri frá Flagbjarnarholti 6,52
2. Árni Sigfús Birgisson / Sjór frá Ármóti 6,19
3. Sigurbjörn J Þórmundsson / Leistur frá Hemlu II 5,90
4. Þorvarður Friðbjörnsson / Þengill frá Þjóðólfshaga 1 5,79
5. Játvarður Jökull Ingvarsson / Kappi frá Dallandi 5,69
6. Leó Hauksson / Bú-Álfur frá Vakurstöðum 5,62
7. Sigurður Grétar Halldórsson / Álmur frá Skjálg 4,05
Keppni í hestaíþróttum er nú að komast á fullt skrið og ber Meistaradeildina hæst, en frá henni er sýnt beint á Stöð 2 Sport aðra hverja viku.
Næsta keppni fer fram í fimmgangi fimmtudaginn 26. febrúar og hefur Vísir heimildir fyrir því að þar mæti knapar með mjög sterka hesta til leiks, meðal annars kemur Íslandsmeistarinn í fimmgangi Hulda Gústafsdóttir með hinn fasmikla Birki frá Vatni.
Á Stöð 2 Sport eru einnig sýndir upprifjunarþættir Meistaradeildarinnar, einnig á fimmtudagskvöldum, þar sem farið er yfir hverja keppnisgrein, rætt við sigurvegara og dómarar skýra einkunnagjöf og sýningar.
Hér fyrir neðan má sjá myndasyrpu frá mótinu í Sprettshöllinni.