Eins og hálfs árs gamalt barn lést nýverið af völdum mislinga í þýsku höfuðborginni Berlín. Þýsk yfirvöld greindu frá þessu í morgun.
Versti mislingafaraldurinn í fjórtán ár geisar nú í Berlín en á fyrstu sjö vikum ársins var tilkynnt um 447 ný tilfelli. Rúmlega helmingur hinna smituðu eru fullorðnir.
Barnið var flutt á Reinickendorfer sjúkrahúsið en lést þann 18. febrúar síðastliðinn. Þýsk yfirvöld hafa hvatt borgara til að bólusetja sig.
Carl-Zeiss-Schule skólanum í úthverfi í suðausturhluta Berlínarborgar var lokað í morgun eftir að tilkynnt var um nemanda sem smitast hafði af mislingum.
Faraldurinn er rakinn til hóps flóttamanna frá Serbíu og Bosníu og Hersegóvínu þar sem bólusetningar voru ekki framkvæmdar á tímum borgarastyrjaldarinnar undir lok síðustu aldar.
Á vef landlæknis segir að mislingar séu veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.
Mislingafaraldur í Þýskaland: Eins árs barn lést

Tengdar fréttir

Tólf prósent barna óbólusett: „Þetta er bara fákunnátta“
Barnalæknir sem upplifði mislingafaraldur hér á landi á áttunda áratugnum segir áhyggjuefni að allt að tólf prósent foreldra bólusetji ekki börn sín. Hann segir fákunnáttu foreldra um að kenna þar sem þeir þekki ekki sjúkdómana og áhrif þeirra.

Rætt um að krefjast bólusetningar hjá skólabörnum
Heilbrigðisráðherra segir það áhyggjuefni ef foreldrum heldur áfram að fækka sem bólusetja börn sín.