Evrópusambandið hefur gefið grískum stjórnvöldum frest fram á fimmutdag til að leggja fram nýjar tillögur að samkomulagi við lánardrottna landsins. Þetta varð niðurstaða fundar leiðtoga evruríkjanna í Brussel í kvöld, en á sunnudag hefur verið boðaður annar fundur leiðtoga allra Evrópusambandsríkja.
Evruríkin fóru fram á nýjar tillögur í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Grikkja sem fram fóru um helgina um fyrri samninga.
Fyrir fund dagsins í dag lögðu grísk stjórnvöld til breytingar á fyrirliggjandi samningsdrögum sem að þeirra sögn tók mið af „umboði þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“
Donald Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, sagði að þetta væri mikilvægasta stund í sögu evrusvæðisins í samtali við útlenda fjölmiðla.
„Lokafresturinn rennur út í vikunni,“ sagði Tusk og vísaði þar til nýjustu skilyrða Evrópusambandsins.
Hann bætti við að greiðslufall Grikkja og fall gríska bankakerfisins myndi hafa áhrif á alla Evrópu og að allir þeir sem tryðu öðru væru blindaðir af barnslegri einfeldni.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að leiðtogar evruríkjanna virtu niðurstöður grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar en bæru á sama tíma sameiginlega ábyrgð á framtíð Evrópusambandsins.
Hún bætti við að Grikkir þyrftu nú að vinna að langtíma lausn á vandanum, en ekki skammgóðum vermi.
