Flóttafólkið hélt að það væri að fara til Austurríkis, en þess í stað var lestin stöðvuð við Biscke þar sem starfræktar eru flóttamannabúðir. Tugir þeirra lögðust á lestarteinana til að mótmæla því að færa ætti þau í flóttamannabúðir. Lögregluþjónar í óeirðarbúningum með kylfur fjarlægðu fólkið úr lestinni.
Lögreglan hefur lýst lestarstöðinni við Biscke sem „aðgerðarsvæði“ og fjölmiðlafólk hefur verið rekið af vettvangi.
Samkvæmt Sky News bíða hundruð enn í Keleti í Búdapest eftir því að komast í lestir. Síðustu daga hafa þúsundir sofið við lestarstöðina, en minnst 150 þúsund flóttamenn hafa farið til Ungverjalands á þessu ári. Þaðan reyna þau að komast til annarra ríkja álfunnar.