Skoðun

Guðni er minn kostur

Eiríkur Hjálmarsson skrifar

Saga embættis forseta Íslands er stutt eða bara rúm 70 ár. Fimm hafa gegnt því. Til samanburðar má rekja röð Japanskeisara aftur fyrir landnám Íslands og nú ríkir sá 125. í óslitinni röð. Japanar fá hinsvegar ekki að velja sér þjóðhöfðingja. Það fáum við og nú er komið að því.



Ekki skortir okkur úrvalið af frambjóðendum í þetta skiptið. Þau eru eins ólík og þau eru mörg. Hvert með sínar áherslur og stílbrigði; styrkleika og snöggu bletti. Maður mátar ekki bara áherslur frambjóðendanna við það sem manni sjálfum finnst, heldur ekki síður persónurnar og hvað eftir þær liggur.



Sá frambjóðandi sem mér finnst hafa skarpasta sýn á verkefni næsta forseta er Guðni Th. Jóhannesson. Mér hugnast hans nálgun líka best. Ekki bara hefur hann rýnt í þessa stuttu sögu flestum betur, heldur hefur hann líka dregið af henni lærdóma, sem hann hefur miðlað óspart.



Það finnst mér mikilvægt nú þegar 20 ára setu núverandi forseta lýkur og við kjósendur veljum hvert kúrsinn liggur héðan. Guðni hefur ekki bara með skrifum sínum og sögum lagt okkur í hendur tæki til að meta með heiðarlegum hætti þá leið sem við Íslendingar höfum valið síðustu áratugi, heldur líka boðist til að leiða okkur á ferðalaginu næstu árin.



Fyrir það er ég þakklátur þeim Guðna og Elizu. Mér finnst þau hafa staðið sig með miklum sóma í að kynna sig og sjónarmið sín síðustu vikur. Þau hafa svarað spurningum fólks víða um land. Það hafa þau gert af heiðarleika og húmor, sem er kannski það sem mestu máli skiptir þegar öllu er á botninn hvolft.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×