Garðar sækir vinnu í húsnæði sem stendur við bílaþvottaplan þeirra heimamanna. Tveir ferðamenn höfðu fækkað fötum og nýttu kalda vatnið í kústunum til að skella sér í sturtu.
„Ég held að þetta hafi verið Frakkar, mér heyrðist það á þeim,“ segir Garðar Valur sem vinnur í húsi sem stendur við planið. Hann segir það sína upplifun að ferðamenn í sumar hafi verið enn fleiri. Hann hafi þó ekki orðið var við þessa birtingarmynd áður, að ferðamenn skelli sér í sturtu á planinu fyrir utan hjá honum.

„Það var einhver sem var að veita þeim eitthvað tiltal,“ segir Garðar Valur sem fylgdist með úr fjarlægð. Ferðamennirnir brugðust ekki vel við gagnrýninni.
„Annar þeirra hoppaði bara upp á steypuklumpinn og veifaði sprellanum framan í þá, og öskraði eitthvað á þá á frönsku held ég.“
Garðar segist enn vera að átta sig á því að þetta hafi gerst og samstarfsfólk hans hafi hlegið mikið í morgun.
„Ég þurfti alveg að nudda augun, ég átti ekki von á þessu.“
Svo skemmtilega vill til að Garðar titlar sjálfan sig njósnara á Já.is og segja má að kappinn hafi staðið undir nafni í morgun.