Hafsteinn Briem fyrirliði ÍBV var niðurlútur eftir tap gegn Víkingum í kvöld. Hann sagði það hafa komið á óvart þegar Bjarni Jóhannsson þjálfari liðsins hætti um helgina.
„Mér fannst það ekki liggja í loftinu þegar við fengum fréttirnar af þessu. Þetta var smá skellur en við tókum leikmannafund og ákváðum að þjappa okkur saman og treysta á það sem Jeffs og Alfreð ætla að koma með. Mér fannst við sýna það að við værum vel undirbúnir og við þurfum ekki að kvíða næstu leikjum,“ sagði Hafsteinn í samtali við Vísi eftir leik.
Sigurmark Víkinga kom á 89.mínútu leiksins en fram að því höfðu Eyjamenn leikið ágætlega og verið sterkari aðilinn í leiknum.
„Við settum helling í þennan leik, lögðum hann vel upp og spiluðum vel. Það eru í raun tvö atvik þar sem kemur smá einbeitingarleysi í liðinu. Við fáum á okkur þessi mörk og það er grátlegt því mér fannst frammistaðan nokkuð góð hjá okkur.“
„Dekkingin klikkar í seinna markinu og við féllum alltof langt niður með varnarlínuna þegar sendingin kemur. Þá er erfitt fyrir markmanninn að reikna þetta út. Það er erfitt að meta þetta strax eftir leik en ég á mjög erfitt með að kyngja þessu,“ bætti Hafsteinn við.
ÍBV er í harðri fallbaráttu og aðeins fjórum stigum á undan Fylki sem tapaði einnig í kvöld. Næst eiga Eyjamenn leik gegn Þrótturum og þar þurfa þeir nauðsynlega á þremur stigum að halda.
„Við þurfum að fara að nýta færin okkar. Við fáum helling af færum og að mínu mati eigum við að vera búnir að drepa leikinn fyrir löngu. Það eru þessi sekúndubrot í varnarleiknum sem eru að skila þessum mörkum og það er alls ekki nógu gott,“ sagði Hafsteinn að lokum.
Hafsteinn: Lá ekki í loftinu að Bjarni skyldi hætta
Smári Jökull Jónsson skrifar

Mest lesið

„Hugur minn er bara hjá henni“
Íslenski boltinn

Aubameyang syrgir fallinn félaga
Fótbolti

„Skitum á okkur í þriðja leikhluta“
Körfubolti


„Þetta var skrýtinn leikur“
Íslenski boltinn

„Fáránlega erfið sería“
Körfubolti



