Daily Mail greinir frá þessu. Maðurinn heitir Paul Schofield, hann var 58 ára gamall tveggja barna faðir og hafði farið á spítala á Íslandi eftir atvikið. Þar hélt hann því fram að hann væri með brákuð rifbein. Hann óttaðist að tryggingafélagið myndi líta svo á að reiðtúrinn flokkaðist undir gáleysislegt athæfi. Þess í stað sagðist hann hafa runnið til á ösku, og dottið á gangstétt í Reykjavík. Læknarnir hugðu því ekki að sér og útskrifuðu hann með lyfseðil uppá verkjalyf. Hann hneig hins vegar niður þegar hann kom aftur í íbúðina í Reykjavík.
Honum var þá ekið í snatri á Landspítala Háskólasjúkrahús með sjúkrabíl en dó eftir aðgerð. Rannsóknir leiddu í ljós að dánarorsökin var rifið milta.
Schofield var frá Stockport í nágrenni Manchester og hafði hann keypt ferð til Íslands sem jólagjöf til sín sjálfs og Rosalyn Davies, konu sem hann var í sambandi með. Fóru þau til Íslands í leyfi í apríl á þessu ári.
Eins og áður segir greinir Daily Mail frá þessu og þar má sjá talsvert ítarlegri umfjöllun um þessa ferð sem endaði svo hörmulega.
