Krister Petersson mun taka við rannsókninni á morðinu á sænska forsætisráðherranum Olof Palme sem var skotinn til bana í Stokkhólmi í febrúar 1986. Frá þessu var greint í dag.
Nafnið kann að hljóma kunnuglega en smákrimminn og „alnafni“ Petersson, Christer Pettersson, er eini maðurinn sem hefur verið dæmdur fyrir morðið á Palme. Hann var síðar sýknaður á efra dómsstigi.
Krister Petersson, sem nú tekur við rannsókninni, hefur meðal annars komið að rannsókn morðsins á sænska utanríkisráðherranum Önnu Lindh sem myrt var árið 2003, og var saksóknari í réttarhöldunum gegn John Ausonius, betur þekktur sem „Lasermannen“, sem dæmdur var fyrir morð og morðtilraunir árið 1994.
Vararíkissaksóknarinn Kerstin Skarp hefur leitt rannsóknina á Palme-morðinu frá árinu 2009 en lætur af störfum í febrúar á næsta ári.
