Verkfall sjómanna sem hófst á miðvikudagskvöld kostar þjóðarbúið stórar fjárhæðir og hefur áhrif á störf fjölda fólks sem vinnur við fiskvinnslu. Í Fréttablaðinu í morgun var greint frá því að fiskur sé að klárast hjá fiskvinnslum.
Fiskverkunarfólk sent heim
Jón Steinar Elíasson er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. „Það er allt að verða tómt. Það er ekkert annað sem tekur við, það verður bara að senda fólkið heim. Það verður eitthvað af smábátum en það er nú varla til að byggja á. Þetta hefur auðvitað slæm áhrif, það er engin spurning. Auðvitað þarf að greiða fólkinu laun og það er skaði af þessu. Ekki bara skaði fyrir fyrirtækin, gagnvart launum fólksins, heldur líka gagvart mörkuðum.“
Jón segir að tíminn milli jóla og nýárs og fyrstu tvær vikurnar í janúar séu góður sölutími fyrir ferskan fisk og fullyrðir að mikið sé í húfi.

Verkfall sjómanna hefur áhrif á störf þúsunda í landi sem starfa í fiskvinnslu. Sigurður Bessason formaður Eflingar sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi að verkfallið væri enn ekki farið að hafa áhrif en stutt væri í það þar sem fiskur færi að klárast. „Við erum náttúrulega að vinna með þessi mál þessa dagana og væntanlega mun þetta skýrast betur næstu vikuna."
Þegar fiskur klárast er engin vinna fyrir fólk í fiskvinnslum. „Við höfum látið skoða þetta og það er okkar mat að þetta fólk eigi rétt á atvinnuleysisbótum í framhaldinu. Ég veit hins vegar líka að verið er að skoða þessar reglur innan Vinnumálastofnunar og ég á ekki von á því að þar verði komist að einhverri annarri niðurstöðu,“ sagði Sigurður.
Slíkt gæti haft í för með sér tekjuskerðingu fyrir þessa starfsmenn. „Það er hluti af því sem gerist, þegar vinna fellur niður, að atvinnuleysisbætur eru mun lægri en hefðbundnar launatekjur."