Samkeppniseftirlitið mun ekkert aðhafast í kaupum Pressunnar hf. á Birtingi útgáfufélagi. Eftirlitið telur að kaupin brjóti ekki í bága við samkeppnislög. Ákvörðunin var birt á vef Samkeppniseftirlitsins á föstudag.
Frá kaupunum var greint í nóvember en um svipað leyti festi Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður, útgefandi og 25% eigandi í Pressunni, kaup á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Fjölmiðlafyrirtækið var rekið með ellefu milljóna króna hagnaði á síðasta ári en á sama tíma eru dótturfélögin rekin með tapi.
Pressan er móðurfélag Vefpressunnar, DV og Eyjunnar.is en Vefpressan tapaði 20 milljónum á síðasta ári og Eyjan tæplega sjö milljónum. Ársreikningi DV ehf. fyrir árið 2015 hefur ekki verið skilað.
Samkeppniseftirlitið telur að samruninn muni ekki hindra samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Minnst er á bága fjárhagsstöðu Birtings í því sambandi.
„Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni, fjölræði eða fjölbreytni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.
Flaggskip Birtings hafa verið tímaritin Gestgjafinn og svo samkvæmistímaritið Séð og heyrt. Þar virðist Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir hafa ritstýrt sínu síðasta blaði, ef marka má viðtal við hana í Brennslunni á FM957 á dögunum, og óvissa er hvað tekur við hjá blaðinu.
Gert er ráð fyrir því að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga árið 2017 verði um tveir milljarðar króna. Starfsfólk samstæðunnar verður vel á annan hundrað, en starfsstöðvar eru í Kringlunni, Garðabæ, Ármúla og Skeifunni.
