Fann að hér vildi ég eiga heima Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 4. febrúar 2017 08:30 Kindurnar eru hændar að Karólínu en hafa varann á sér gagnvart Baugi. Vísir/Stefán Það er ekki vandalaust að þræða vegarslóðann heim að Hvammshlíð í Húnavatnssýslu en ábúandinn Karólína kemur niður að þjóðvegi til að lóðsa okkur síðasta spölinn og hundurinn Baugur fylgir henni. Það er sex stiga frost og gengur á með snörpum éljum og fjúki. Heima við bæ láta kindurnar ekki vetrargarrann aftra sér frá útivist, þó dyr fjárhússins standi þeim opnar. Þær eru bústnar og athygli vekur að næstum allar eru mislitar. Baugur setur upp smá gestasýningu, hann telur það greinilega sína æðstu skyldu að halda hópnum saman og hleypur kring um hann sitt á hvað. Karólína á líka fjögur hross, þau eru á útigangi rétt við bæinn en þennan dag eru þau í hvarfi niðri í dal sem skýlir þeim. Baugur fylgist vel með hvernig Karólínu gengur að komast yfir girðinguna í bylnum.Aldrei einmana Dyrnar á litla húsinu hennar Karólínu ná ekki niður að jörð, því þarf að glenna sig til að stíga inn fyrir þröskuldinn. „Í fyrravetur voru fannir hér upp á veggi og þá kom sér vel að hafa svona hátt upp í dyrnar. Á sumrin er ég hins vegar með tröppur,“ útskýrir Karólína. Hún teiknaði húsið sjálf og bjó í því sex ár í Hegranesinu í Skagafirði. Þar voru landþrengsli svo þegar hún frétti af Hvammshlíð var hún ekki lengi að hugsa sig um og flutti húsið þangað. Jörðin er 600 hektarar að stærð en hafði ekki verið setin síðan 1886 og var því húsalaus. „Það leið mánuður frá því ég skrifaði undir kaupsamninginn haustið 2015 þar til ég var flutt inn, enda var vetur að skella á og ég þurfti að gera allt á háhraða. Ég var vatnslaus fyrsta mánuðinn, frá miðjum desember, þá fann ég góða lind með kaldavermsl uppi í fjallinu og þar með var eina vandamálið úr sögunni,“ segir hún brosandi. Bendir á að byggðalínan liggi um landareignina og því hafi verið auðvelt að ná í rafmagn. En er hún aldrei einmana þarna uppi í fjalli? „Nei, ég er svo fegin að vera hér í miðju náttúrunnar með skepnunum mínum og hlakka til að vakna á hverjum morgni. Veginum yfir fjallið er alltaf haldið opnum þannig að ég er ekki einangruð og fæ oft vini í heimsókn eða öfugt en fer yfirleitt ekki að heiman nema ferðaveður sé.“Karólína teiknaði húsið sjálf og hér situr hún við þýska eikarborðið sem er ættargripur. Það er hlýlegt innan dyra, hiti í gólfinu og ull á stólum við eikarborðið þar sem við tyllum okkur. Borðið er þýskur ættargripur því Karólína fæddist í Bremen í Þýskalandi, ólst upp í sveitinni nálægt Hannover og heitir með réttu Caroline Kerstin Mende en sem jarðeiganda á Íslandi þótti henni við hæfi að taka upp íslenskt nafn.Féð gengur út og inn eftir því sem það vill. Það hefur heyrúllu úti.Þegar farið er að spjalla kemur fljótt í ljós að Karólína metur Ísland, víðerni þess og þjóðmenningu meira en margur innfæddur. En hvað leiddi hana hingað norður á hjara? „Ég var svolítið í hestamennsku í Þýskalandi sem unglingur og þó ég kynntist ekki íslenska hestinum þar vissi ég af honum og fannst heillandi hvað íslenska samfélagið var nátengt honum. Mig langaði að kynnast því nánar og réð mig sem vinnukonu að Húsatóftum á Skeiðum. Kom fyrst til landsins 1989, strax eftir framhaldsskóla. Á þeim tíma steig maður beint út undir beran himin úr flugvélunum í Keflavík og ég fann strax að hér vildi ég eiga heima, þetta var mitt land. Ég get ekki útskýrt tilfinninguna en það sama gerðist þegar ég fór í fyrsta sinn á bak íslenskum hesti sama kvöld.“Karólína tekur sjálf flestar myndirnar í bækurnar sína en fær líka myndir hjá öðrum til að auka fjölbreytnina.Fór strax að kynna Ísland Karólína hélt aftur til Þýskalands, lærði verkfræði og stofnaði auglýsingastofu í félagi við þáverandi kærasta. Þegar upp úr sambúð þeirra slitnaði sá hún sér leik á borði, flutti til Íslands en hélt samt áfram að vinna við fyrirtækið gegnum tölvu. Nokkrum árum seinna stofnaði hún forlag sem systurfyrirtæki þess til að hefja útgáfu bæklinga um Ísland. „Nú er ég sjálfstæð og það er gott en ég og fyrrverandi sambýlismaður eigum í ágætum samskiptum,“ lýsir hún brosandi. Bækurnar eru orðnar sjö talsins sem Karólína hefur gefið út um séríslenskt efni á þýsku og sumar þeirra hefur hún þýtt á ensku. Fyrir utan bækur um íslenska hestinn, kindina og smalahunda á Íslandi hefur hún skrifað um torfbæi og ferðalög fyrr á tíð. „Ég fór strax að kynna Ísland því að ég vil fræða fólk sem kemur hingað um bakgrunn þjóðarinnar, það er oft lítið um hann í almennum ferðabæklingum,“ útskýrir hún. „Ég er grúskari og hef gaman af þeirri rannsóknarvinnu sem að baki bókunum býr, bæði að rýna í gamlar bækur og sækja fróðleik til eldra fólks sem hefur frá svo mörgu að segja.“Karólína og hennar grái hrússi sem gengur með svuntu þegar með þarf.Ullin áhugamál og lifibrauð Íslensk ull er í uppáhaldi hjá Karólínu, prjónaflíkur, mislit reyfi, rokkur og kambar heima hjá henni eru til vitnis um það. „Ullin er bæði áhugamál og lifibrauð hjá mér. Íslenska ullin er svo einstök, ég tel að Íslendingar meti hana ekki að verðleikum. Mér finnst hún nýtast best þegar tekið er ofan af, þannig að togið og þelið er aðskilið. Hreint þel er svo mjúkt, svo nota ég togið til að skreyta með.“Togið er gott í skreytingar að mati Karólínu.Karólína er með kindur í fóstri fyrir fólk í Þýskalandi sem borgar henni fyrir fóður og lyf og fær ull í staðinn. Svo kaupir hún mislita ull af bændum fyrir betra verð en þeir fá hjá Ístexi og selur úti. „Ég fer til Þýskalands nokkrum sinnum á ári og held námskeið þar um íslenska ull, það bókast strax á þau,“ segir hún. „Stundum fæ ég líka ferðahópa til mín á sumrin til að skoða kindurnar og fræðast um þær, þær eru alltaf hér nálægt bænum því ég hef 30 hektara innan girðingar. Sumir vilja kaupa ull strax. Þannig gerðist ég ullarsölumaður.“Mislita ullin er í uppáhaldi hjá Karólínu og þeim kaupendum sem hún er í sambandi við.Engin tún tilheyra Hvammshlíð og Karólína kaupir hey af næsta nágranna, Braga bónda á Þverá, sem aðstoðar hana líka í ýmsu öðru kringum búskapinn. Hún á 600 hektara af landi sem allt er vaxið lyng- og kjarrgróðri, þannig vill hún hafa það. Hún sér kosti Íslands betur en margir aðrir. „Ég held að hvergi í heiminum sé jafn tæknilega háþróað samfélag sem er svona nátengt náttúrunni og á Íslandi,“ segir hún og heldur áfram: „Hér er svo stór hluti landsins enn ósnortinn og ég tel að það sé það dýrmætasta sem þarf að viðhalda. En ég óttast að margir Íslendingar kunni ekki að meta það sem vert er. Mér finnst erfitt að segja útlendingum að hér eyðileggi menn náttúru hálendisins á stórum svæðum bara til að selja útlendum stóriðnaðarfyrirtækjum orku sem græða á henni. Sjálfri finnst mér það mikil skammsýni.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. febrúar 2017 Lífið Mest lesið Seldist upp daginn eftir kosningasigur Kristrúnar Tíska og hönnun Laufey Lín og Bjarki á lista Forbes Lífið Birgitta prinsessa er látin Lífið „Risa tilkynning“ Lífið Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu Menning „Ég myndi ekki vilja fá þetta í andlitið“ Lífið Þetta hlustaði heimsbyggðin á árið 2024 Lífið Taka sér hlé hvort frá öðru Lífið Til að fá listamannalaun þarftu að vera í náðinni Lífið 40 ára kona: Er of seint að deita konur? Lífið Fleiri fréttir Ásta Fanney til Feneyja Þetta hlustaði heimsbyggðin á árið 2024 Birgitta prinsessa er látin Laufey Lín og Bjarki á lista Forbes Með okkar augum fengu Kærleikskúluna Flatur strúktúr gekk ekki upp Fyrsta verkefni þingmanna verði að mála mynd hver af öðrum Tónlistarkona selur íbúð í miðbænum „Ég myndi ekki vilja fá þetta í andlitið“ Taka sér hlé hvort frá öðru Sá yngsti 23 ára og sá elsti 98 ára Þjóðþekktir einstaklingar búa til pláss fyrir grínstjóra UNICEF „Risa tilkynning“ Komst í jólaskapið í september 40 ára kona: Er of seint að deita konur? Fitusmánuð á rauða dreglinum Daníel Takefusa og Ásdís Eva selja íbúð á eftirsóttum stað Sóli mátti bara tala í eftirhermum Heitasti útvarpsmaður landsins selur slotið Dagur og Jónas Reynir fá ekki starfslaun Gummi Kíró og Lína fagna fimm árum af ást Til að fá listamannalaun þarftu að vera í náðinni Hlýlegt sjónvarpsherbergi með vínbar í Garðabæ Kvöddu með stæl Ástfangnar í tuttugu ár Gísli Pálmi er orðinn pabbi Harold með ólæknandi krabbamein Opna „hommalegustu blómabúðina í bænum“ Orð ársins vísar til rotnunar heilans Alma Möller og Inga Sæland í mesta stuðinu Sjá meira
Það er ekki vandalaust að þræða vegarslóðann heim að Hvammshlíð í Húnavatnssýslu en ábúandinn Karólína kemur niður að þjóðvegi til að lóðsa okkur síðasta spölinn og hundurinn Baugur fylgir henni. Það er sex stiga frost og gengur á með snörpum éljum og fjúki. Heima við bæ láta kindurnar ekki vetrargarrann aftra sér frá útivist, þó dyr fjárhússins standi þeim opnar. Þær eru bústnar og athygli vekur að næstum allar eru mislitar. Baugur setur upp smá gestasýningu, hann telur það greinilega sína æðstu skyldu að halda hópnum saman og hleypur kring um hann sitt á hvað. Karólína á líka fjögur hross, þau eru á útigangi rétt við bæinn en þennan dag eru þau í hvarfi niðri í dal sem skýlir þeim. Baugur fylgist vel með hvernig Karólínu gengur að komast yfir girðinguna í bylnum.Aldrei einmana Dyrnar á litla húsinu hennar Karólínu ná ekki niður að jörð, því þarf að glenna sig til að stíga inn fyrir þröskuldinn. „Í fyrravetur voru fannir hér upp á veggi og þá kom sér vel að hafa svona hátt upp í dyrnar. Á sumrin er ég hins vegar með tröppur,“ útskýrir Karólína. Hún teiknaði húsið sjálf og bjó í því sex ár í Hegranesinu í Skagafirði. Þar voru landþrengsli svo þegar hún frétti af Hvammshlíð var hún ekki lengi að hugsa sig um og flutti húsið þangað. Jörðin er 600 hektarar að stærð en hafði ekki verið setin síðan 1886 og var því húsalaus. „Það leið mánuður frá því ég skrifaði undir kaupsamninginn haustið 2015 þar til ég var flutt inn, enda var vetur að skella á og ég þurfti að gera allt á háhraða. Ég var vatnslaus fyrsta mánuðinn, frá miðjum desember, þá fann ég góða lind með kaldavermsl uppi í fjallinu og þar með var eina vandamálið úr sögunni,“ segir hún brosandi. Bendir á að byggðalínan liggi um landareignina og því hafi verið auðvelt að ná í rafmagn. En er hún aldrei einmana þarna uppi í fjalli? „Nei, ég er svo fegin að vera hér í miðju náttúrunnar með skepnunum mínum og hlakka til að vakna á hverjum morgni. Veginum yfir fjallið er alltaf haldið opnum þannig að ég er ekki einangruð og fæ oft vini í heimsókn eða öfugt en fer yfirleitt ekki að heiman nema ferðaveður sé.“Karólína teiknaði húsið sjálf og hér situr hún við þýska eikarborðið sem er ættargripur. Það er hlýlegt innan dyra, hiti í gólfinu og ull á stólum við eikarborðið þar sem við tyllum okkur. Borðið er þýskur ættargripur því Karólína fæddist í Bremen í Þýskalandi, ólst upp í sveitinni nálægt Hannover og heitir með réttu Caroline Kerstin Mende en sem jarðeiganda á Íslandi þótti henni við hæfi að taka upp íslenskt nafn.Féð gengur út og inn eftir því sem það vill. Það hefur heyrúllu úti.Þegar farið er að spjalla kemur fljótt í ljós að Karólína metur Ísland, víðerni þess og þjóðmenningu meira en margur innfæddur. En hvað leiddi hana hingað norður á hjara? „Ég var svolítið í hestamennsku í Þýskalandi sem unglingur og þó ég kynntist ekki íslenska hestinum þar vissi ég af honum og fannst heillandi hvað íslenska samfélagið var nátengt honum. Mig langaði að kynnast því nánar og réð mig sem vinnukonu að Húsatóftum á Skeiðum. Kom fyrst til landsins 1989, strax eftir framhaldsskóla. Á þeim tíma steig maður beint út undir beran himin úr flugvélunum í Keflavík og ég fann strax að hér vildi ég eiga heima, þetta var mitt land. Ég get ekki útskýrt tilfinninguna en það sama gerðist þegar ég fór í fyrsta sinn á bak íslenskum hesti sama kvöld.“Karólína tekur sjálf flestar myndirnar í bækurnar sína en fær líka myndir hjá öðrum til að auka fjölbreytnina.Fór strax að kynna Ísland Karólína hélt aftur til Þýskalands, lærði verkfræði og stofnaði auglýsingastofu í félagi við þáverandi kærasta. Þegar upp úr sambúð þeirra slitnaði sá hún sér leik á borði, flutti til Íslands en hélt samt áfram að vinna við fyrirtækið gegnum tölvu. Nokkrum árum seinna stofnaði hún forlag sem systurfyrirtæki þess til að hefja útgáfu bæklinga um Ísland. „Nú er ég sjálfstæð og það er gott en ég og fyrrverandi sambýlismaður eigum í ágætum samskiptum,“ lýsir hún brosandi. Bækurnar eru orðnar sjö talsins sem Karólína hefur gefið út um séríslenskt efni á þýsku og sumar þeirra hefur hún þýtt á ensku. Fyrir utan bækur um íslenska hestinn, kindina og smalahunda á Íslandi hefur hún skrifað um torfbæi og ferðalög fyrr á tíð. „Ég fór strax að kynna Ísland því að ég vil fræða fólk sem kemur hingað um bakgrunn þjóðarinnar, það er oft lítið um hann í almennum ferðabæklingum,“ útskýrir hún. „Ég er grúskari og hef gaman af þeirri rannsóknarvinnu sem að baki bókunum býr, bæði að rýna í gamlar bækur og sækja fróðleik til eldra fólks sem hefur frá svo mörgu að segja.“Karólína og hennar grái hrússi sem gengur með svuntu þegar með þarf.Ullin áhugamál og lifibrauð Íslensk ull er í uppáhaldi hjá Karólínu, prjónaflíkur, mislit reyfi, rokkur og kambar heima hjá henni eru til vitnis um það. „Ullin er bæði áhugamál og lifibrauð hjá mér. Íslenska ullin er svo einstök, ég tel að Íslendingar meti hana ekki að verðleikum. Mér finnst hún nýtast best þegar tekið er ofan af, þannig að togið og þelið er aðskilið. Hreint þel er svo mjúkt, svo nota ég togið til að skreyta með.“Togið er gott í skreytingar að mati Karólínu.Karólína er með kindur í fóstri fyrir fólk í Þýskalandi sem borgar henni fyrir fóður og lyf og fær ull í staðinn. Svo kaupir hún mislita ull af bændum fyrir betra verð en þeir fá hjá Ístexi og selur úti. „Ég fer til Þýskalands nokkrum sinnum á ári og held námskeið þar um íslenska ull, það bókast strax á þau,“ segir hún. „Stundum fæ ég líka ferðahópa til mín á sumrin til að skoða kindurnar og fræðast um þær, þær eru alltaf hér nálægt bænum því ég hef 30 hektara innan girðingar. Sumir vilja kaupa ull strax. Þannig gerðist ég ullarsölumaður.“Mislita ullin er í uppáhaldi hjá Karólínu og þeim kaupendum sem hún er í sambandi við.Engin tún tilheyra Hvammshlíð og Karólína kaupir hey af næsta nágranna, Braga bónda á Þverá, sem aðstoðar hana líka í ýmsu öðru kringum búskapinn. Hún á 600 hektara af landi sem allt er vaxið lyng- og kjarrgróðri, þannig vill hún hafa það. Hún sér kosti Íslands betur en margir aðrir. „Ég held að hvergi í heiminum sé jafn tæknilega háþróað samfélag sem er svona nátengt náttúrunni og á Íslandi,“ segir hún og heldur áfram: „Hér er svo stór hluti landsins enn ósnortinn og ég tel að það sé það dýrmætasta sem þarf að viðhalda. En ég óttast að margir Íslendingar kunni ekki að meta það sem vert er. Mér finnst erfitt að segja útlendingum að hér eyðileggi menn náttúru hálendisins á stórum svæðum bara til að selja útlendum stóriðnaðarfyrirtækjum orku sem græða á henni. Sjálfri finnst mér það mikil skammsýni.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. febrúar 2017
Lífið Mest lesið Seldist upp daginn eftir kosningasigur Kristrúnar Tíska og hönnun Laufey Lín og Bjarki á lista Forbes Lífið Birgitta prinsessa er látin Lífið „Risa tilkynning“ Lífið Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu Menning „Ég myndi ekki vilja fá þetta í andlitið“ Lífið Þetta hlustaði heimsbyggðin á árið 2024 Lífið Taka sér hlé hvort frá öðru Lífið Til að fá listamannalaun þarftu að vera í náðinni Lífið 40 ára kona: Er of seint að deita konur? Lífið Fleiri fréttir Ásta Fanney til Feneyja Þetta hlustaði heimsbyggðin á árið 2024 Birgitta prinsessa er látin Laufey Lín og Bjarki á lista Forbes Með okkar augum fengu Kærleikskúluna Flatur strúktúr gekk ekki upp Fyrsta verkefni þingmanna verði að mála mynd hver af öðrum Tónlistarkona selur íbúð í miðbænum „Ég myndi ekki vilja fá þetta í andlitið“ Taka sér hlé hvort frá öðru Sá yngsti 23 ára og sá elsti 98 ára Þjóðþekktir einstaklingar búa til pláss fyrir grínstjóra UNICEF „Risa tilkynning“ Komst í jólaskapið í september 40 ára kona: Er of seint að deita konur? Fitusmánuð á rauða dreglinum Daníel Takefusa og Ásdís Eva selja íbúð á eftirsóttum stað Sóli mátti bara tala í eftirhermum Heitasti útvarpsmaður landsins selur slotið Dagur og Jónas Reynir fá ekki starfslaun Gummi Kíró og Lína fagna fimm árum af ást Til að fá listamannalaun þarftu að vera í náðinni Hlýlegt sjónvarpsherbergi með vínbar í Garðabæ Kvöddu með stæl Ástfangnar í tuttugu ár Gísli Pálmi er orðinn pabbi Harold með ólæknandi krabbamein Opna „hommalegustu blómabúðina í bænum“ Orð ársins vísar til rotnunar heilans Alma Möller og Inga Sæland í mesta stuðinu Sjá meira