Skoðun

Frekari slátrun á hvölum er ómannúðleg og efnahagslega skaðleg

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Mikil alþjóðleg vakning hefur orðið síðustu árin um það að við verðum að virða, vernda og hlú að lífríkinu í kringum okkur: Dýrum hvers konar, á landi, í lofti og til sjávar, jurtum og plöntum – allri flórunni – svo og að landi, vatni og lofti.

Eitt er það að við berum tilhlýðilega virðingu fyrir því stórkostlega lífríki, sem okkur hefur verið lagt til, annað er það, að án þessa lífríkis værum við sjálf ekki til; Það verður engin varanleg velferð manna, án þess, að velferð lífríkisins sé jafnframt tryggð.

Sköpuð eins og við

Við bætist, að stór hluti lífveranna í kringum okkur er í grundvallaratriðum skapaður eins og við: Eru bræður okkar og systur, aðeins með aðra stærð eða annað líkamsform en við.

Menn leyfa sér að gera tilraunir á dýrum, jafnvel kvelja þau og drepa, til að fá svör við spurningum um sjúkdóma og vandamál manna. Það má jafnvel nota niðurstöður tilrauna á músum eða rottum og yfirfæra þær á mannfólkið í baráttunni við kvilla og sjúkdóma. Hvað segir það um hin nánu tengsl okkar við dýrin?

Nánast útrýmt

Upp úr 1920 voru um 400-500.000 hvalir í úthöfum heims. Eftir seinni heimsstyrjöld hófst stórsókn á hendur þessum blessuðu og stórkostlegu en varnarlausu verum, þannig, að um 1970 var heildarstofn hvala um allan heim orðinn aðeins um 40-50.000. 90% voru fallin í árásum grimmra, miskunnarlausra og gráðugra veiðimanna.

Hvaladráp bannað 1986

Á síðustu stundu greip þó Alþjóðahvalveiðiráðið í taumana og bannaði allar hvalveiðir í atvinnuskyni, en því miður reyndust 3 þjóðir skilningslausar á ástandið og tilfinningalausar gagnvart þeirri ómannúðlegu eyðileggingu á lífríki úthafanna, sem hér var að eiga sér stað; Japanir, Norðmenn og Íslendingar. Hefur því hvölum ekki fjölgað mikið á síðustu 30 árum, þrátt fyrir friðun. Hörmungarsaga! Fyrir 100 árum vori þeir um 500.000!

Háþróaðar verur

Hvalir eru taldir kenna hver öðrum og læra hver af öðrum, vinna saman, bindast nánum vina- og fjölskylduböndum, gleðjast og hryggjast, kvíða fyrir og hræðast og syrgja, þegar sorg ber að höndum. Smáhvalirnir, einkum höfrungurinn, en líka hrefnur, eru þekktir fyrir allskonar flókna leiki – höfrungurinn virðist jafnvel geta slegið manninn út í ýmsum þrautum – og eru þetta því lífverur á háu þroska-, vitundar- og tilfinningastigi.

Höfrungar jafnvel drepnir hér

Höfrungurinn er eitt ástsælasta dýr jarðarinnar. Vegna vitsmuna, glaðværðar og elsku á öðrum lífverðum. Börn og unglingar um allan heim elska höfrunginn. Reyndar fólk á öllum aldri líka. Ég fékk það staðfest fyrir nokkru, að ár hvert er verið að drepa töluverðan fjölda höfrunga fyrir Norðausturlandi „skv. gamalli hefð“. Eru þeir menn, sem þetta stunda og þetta leyfa ekki með öllum mjalla!? Ef þetta kæmist í heimsfréttirnar gæti það leitt yfir okkur mikla reiði- og mótmælaöldu.

Um 354.000 ferðamenn skoðuðu hvali

Þúsundir Íslendinga hafa starf og góðar tekjur af hvalaskoðun ferðamanna. Er það gott mál. Í fyrra nutu 354.000 ferðamenn hér friðsamrar hvalskoðunar. Í ár gætu þetta orðið 400.000 til 500.000 manns. Ef þessir ferðamenn vissu, að við værum bak við tjöldin að murka líftóruna úr þessum fallegu og friðsömu risum úthafanna, meira að segja á algjörlega brostnum og glórulausum efnahagslegum forsendum, er hætt við, að þel manna mundi snúast.

Enn á að fara að slátra hvölum

Eftir um mánuð á að byrja að drepa hrefnur að nýja. Að þessu stendur útgerðarfyrirtæki í Hafnarfirði, sem gerir út 2 báta í þessu skyni. Á nú helzt að drepa um 50 dýr. Samt er enn ekki búið að selja kjöt þeirra dýra, sem drepin voru í fyrra. Mörg þessara dýra – kvendýrin - munu vera kelfd, og er því með drápi þeirra verið að drepa 2 kynslóðir dýra, kýr og fóstur.

Að slepptum mannúðar- og dýraverndurnarsjónarmiðum – sem þó ættu að vega þungt hjá menningarþjóð – vaknar sú spurning, hvernig það megi vera, að hagsmunir hvalaskoðunarfyrirtækja, sem hafa tekjur af friðsamri hvalaskoðun 400.000 ferðamanna, skuli vera stefnt í voða vegna hagsmuna eins fyrirtækis í Hafnarfirði. Svo að ekki sé nú talað um ímynd og orðspor Íslendinga erlendis.

Endanleg og full friðun besta auglýsingin

Ef við Íslendingar, sem gömul veiðimannaþjóð, tökum nú af skarið og friðum alla hvali, hrefnur og höfrunga í íslenzkri fiskveiðilögsögu, myndi það vekja jákvæða athygli um allan heim, og hvetja aðra í dýra- og umhverfisvernd. Í stað andúðar og óvildar, myndu milljónir manna um allan heim, sem elska hina friðsömu risa úthafanna – svo að ekki sé talað um höfrungana – fyllast þakklæti og góðvild til Íslendinga. Betri auglýsingu fyrir land og þjóð væri ekki hægt að fá!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×