Skólinn heitir Thomas Battersea og er í suðvesturhluta London. Hann er fyrir nemendur á aldrinum fjögurra til þrettán ára en Georg varð einmitt fjögurra ára í júlí. Skólagjöldin eru 18 þúsund pund á ári eða sem nemur 2,5 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Vilhjálmur og Katrín ætluðu bæði að fylgja syninum í skólann fyrsta daginn en Katrín átti ekki heimangengt þar sem hún er nú með mikla morgunógleði og uppköst en hún er ólétt af þriðja barni þeirra hjóna. Vilhjálmur fylgdi því syninum í morgun og mættu þeir feðgar í skólanum rétt fyrir klukkan níu.
Fjöldi manns hafði safnast saman við hlið skólans til að fylgjast með komu prinsins en honum var ekið inn um hliðarinngang þar sem öryggishlið lokaðist svo.
Georg labbaði svo ásamt föður sínum í átt til Helen Haslem, yfirkennara yngra stigs skólans, sem tók á móti feðgunum og heilsaði þeim báðum með handabandi.
Miðað við fyrsta skóladag Vilhjálms var lítið fjölmiðlafár í kringum Georg í morgun. Foreldrar hans leyfðu aðeins einum ljósmyndara og einum kvikmyndatökumanni að vera á staðnum til að ná myndum af fyrsta skóladeginum.

