Atlantshafsfellibylurinn Irma þokast nú í átt að Karíbahafinu. Viðvaranir hafa verið gefnar út á Hléborðaeyjum og grannt er fylgst með fellibylnum á Púertó Ríkó og fleiri eyjum í Karíbahafi. Hugsanlegt er að Irma gangi á land í Bandaríkjunum.
Irma var flokkuð sem þriðja stigs fellibylur í dag, að sögn Washington Post. Veðurlíkön eru nú sögð benda til þess að meiri líkur séu en áður á því að Irma stefni á strendur Bandaríkjanna. Veðufræðingar telja nú að hugsanlega muni fellibylurinn skella á Flórída eða Mexíkóflóaströnd Bandaríkjanna snemma í næstu viku.
Jafnvel er spáð að Irma muni enn sækja í sig veðrið næsta sólahringinn þar sem aðstæður eru hagfelldar fellibyljum. Hún gæti verið orðin fjórða stigs fellibylur þegar hún nálgast Bandarísku Jómfrúareyjar á miðvikudag.
Fellbyljamiðstöð Bandaríkjanna varar við því að hitabeltisstormur verði skollinn á í Flórída síðdegis á föstudag. Spáð er sterkum vindi, úrhellisrigningu og hættulegum sjávarflóðum. Flóðin eru sérstaklega hættuleg á láglendum svæðum í sunnanverðri Flórída.
