Tilkynnt var um umferðaróhapp á Kalkofnsvegi við Hörpu á tólfta tímanum í gær. Í kjölfarið voru tveir menn handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Ekki er staðfest hvor þeirra ók bílinn en annar mannanna er auk þess grunaður um vörslu fíkniefna. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Ökumaður grunaður um vörslu fíkniefna
Lögreglan stöðvaði bíl á Hafnarfjarðavegi á fjórða tímanum í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Ökumaðurinn hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín. Hann er auk þess grunaður um vörslu fíkniefna en hann framvísaði ætluðum fíkniefna.
Harður árekstur
Um hálf sex leytið í gær var tilkynnt um umferðaróhapp á Korpúlfstaðavegi. Óhappið reyndist vera harður árekstur tveggja bíla. Annar ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Hinn ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Slysadeild til aðhlynningar en ekki er vitað um líðan mannsins. Bílarnir voru fluttir af vettvangi með dráttarbíl.

