Tekjuhæsti leigusali á Airbnb hér á landi þénaði 236 milljónir króna fyrir 47 gistirými síðustu 12 mánuði. Þetta kemur fram í gögnum á Mælaborði ferðaþjónustunnar sem var opnað á föstudaginn og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Samkvæmt þeim tölum voru fimm manns sem þénuðu yfir 100 milljónir af útleigu á Airbnb á síðasta ári og tekjur þeirra tíu hæstu af útleigunni námu rúmum 1,1 milljarði síðustu 12 mánuði.
Þeir tíu tekjuhæstu voru samtals með til útleigu 276 gistirými. Alls eru um 6,6 þúsund gistirými á Íslandi til leigu á Airbnb samkvæmt gögnum á Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Í svari Sofia Gkiousou hjá Airbnb við fyrirspurn Túrista segir að Airbnb greiðir 97% af leigu til leigusala. Tekjur hins hefðbundna íslenska Airbnb leigusala eru um 1,1 milljón króna á ári og leigir fólk rými út að meðaltali 60 daga á ári. Um 4.000 íslenskir leigusalar voru skráðir á Airbnb í september á þessu ári.
Velta Airbnb var 15,2 milljarðar hér á landi fyrstu níu mánuði þessa árs og þar af um 2 milljarðar í septembermánuði.
