Fjallagarpurinn ræddi um leiðina upp á K2 í Bítinu á Bylgjunni í morgun en hann verður aðalfyrirlesari á háfjallakvöldi Ferðafélags Íslands klukkan 20 í kvöld í Háskólabíói.
„Ég hef ekki farið á öll fjöll í heimi en það er sagt að það sé eitt erfiðasta fjall í heimi til að eiga við – bæði svo mikið af snjóflóðum, veðurfarslega erfitt og svo er þetta klifurfjall, það er það er mikið klifur og hvergi sléttur flötur,“ sagði John Snorri og lýsti því meðal annars hvernig gist var á klettasyllum en oft reyndist erfitt að koma tjöldunum fyrir.
Aðspurður hvort hann hefði aldrei orðið smeykur eða komist í hann krappann sagði John Snorri að hann hefði mjög oft komist í hann krappann á K2.
„Í fimm skipti þurftum við að koma okkur frá snjóflóði, við vorum að koma niður og þurftum að koma okkur undan. Í eitt skipti lendi ég í snjóflóði og svo er grjóthrun í kringum okkur. Þá var læknir frá Singapúr sem kom með okkur upp í búðir tvö en á leiðinni upp í búðirnar verður grjóthrun fyrir aftan hann. Hefði hann verði 2 til 3 mínútum seinna þá hefði hann lent undir grjóthruninu. Þetta tók á hann og hann sneri við í búðum tvö.“
Skilaboðin frá Íslendingum hlýjuðu í kuldanum
John Snorri að honum hefði fundist hann öruggur þrátt fyrir aðstæður.
„Mér fannst ég skilja fjallið mjög vel og mér fannst ég mjög öruggur þó að aðstæðurnar væru svona. Hugurinn var allan tímann mjög rólegur; alveg sama hvað var að gerast í fjallinu þá var hugurinn alltaf rólegur. Ég held að það hjálpi mjög mikið og vera með jákvæðar hugsanir,“ sagði John Snorri.
Þá hlýjuðu allar kveðjurnar frá Íslendingum mjög uppi á fjallinu.
„Ég fékk svo mikið af skilaboðum frá Íslendingum, baráttukveðjur og styrktarkveðjur. Maður er svo mikið einn á fjallinu, þó maður sé í hóp þá er maður einn og þetta hjálpaði. Ég fann að ég hitnaði að innan við allar þesar kveðjur og leið vel.“
Spjallið í Bítinu við John Snorra má heyra í spilaranum hér fyrir neðan en með honum var Ólafur Már Björnsson, augnlæknir, sem einnig gengur mikið á fjöll og mun segja frá ferðum sínum ásamt Tómasi Guðbjartssyni, lækni, á háfjallakvöldinu í kvöld.