Leikkonan Uma Thurman hefur birt myndband af bílslysi sem hún lenti í við tökurnar á Kill Bill. Hún segir framleiðendur myndanna, þar á meðal Harvey Weinstein, hafa reynt að leyna slysinu og hafa neitað að láta hana fá upptöku af því.
Fimmtán árum seinna segir hún leikstjórann Quentin Tarantino iðrast mjög og að hann hafi útvegað henni myndbandið svo hún gæti opinberað það, þrátt fyrir að það gæti skaðað hann. Thurman segist stolt af honum og hugrekki hans.
Hún segir þó yfirhylmingu framleiðenda myndarinnar ófyrirgefanlega. Þeir hafi logið, eytt sönnunargögnum og haldi áfram að ljúga um þann varanlega skaða sem þeir hafi valdið henni.
Slysið varð þegar Thurman átti að aka bíl eftir vegi sem var þakinn sandi og sagðist hún ekki treysta sér til þess.