Nefnd innan kvikmyndaakademíunnar, sem m.a. úthlutar Óskarsverðlaunum ár hvert, hóf rannsóknina á miðvikudag. Þrjár ásakanir á hendur Bailey hafa borist nefndinni, að því er Hollywood Reporter hefur eftir heimildarmönnum sínum.
Í yfirlýsingu frá akademíunni, sem gefin var út eftir að málið rataði í fjölmiðla, sagði að enginn innan hennar myndi tjá sig um ásakanirnar þangað til rannsókn lyki. „Meðferð mála hjá Akademíunni er bundin trúnaði af virðingu við alla hlutaðeigandi,“ sagði í tilkynningu.
Bailey, sem hefur verið margheiðraður fyrir starf sitt sem kvikmyndatökumaður, tók við stöðu forseta í ágúst síðastliðnum. Hann hefur starfað við kvikmyndir á borð við Ordinary People, American Gigolo, The Big Chill og Groundhog Day.

Þá segir í frétt Hollywood Reporter að Bailey, forseti akademíunnar og sá sem nú er rannsakaður vegna ásakana um áreitni, hafi sent meðlimum akademíunnar tölvupóst í kjölfar fundarins. Þar var nýrri stefnu akademíunnar í kynferðisbrotamálum lýst og fólst hún m.a. í því að héðan í frá yrðu ásakanir teknar til rannsóknar af sérstakri nefnd.