Í verkefninu verður velt upp spurningum eins og hvað Ísland geti tekið á móti mörgum ferðamönnum. Hvar við stöndum í dag og til náinnar framtíðar, hvaða innviðir krefjist úrbóta og hversu fjárfrekar úrbætur lykilþátta innviða séu. Framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála segir að verkefnið sé hafið.
„Við erum byrjuð og verkefnið er tvískipt. Fyrsti fasi verkefnisins snýst um það að meta sjálfbærnivísa sem eru þau viðmið, þau sjálfbærniviðmið sem við ætlum að horfa til og teljum vera mikilvægust,“ segir Óskar Jósefsson framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála.
Aldrei áður verið unnið á landsvísu
Óskar segir að breiður hópur sérfræðinga víða að komi að verkefninu en búast megi við niðurstöðum úr fyrsta fasanum í sumar niðurstöður úr síðara hluta komi í haust.„En í ljósi þess að þetta er á vissan hátt þróunarverkefni í leiðinni þá geta nú tímasetningarnar aðeins færst til en við vonumst til að við fáum allavega niðurstöðu, fyrsta mat um það hvernig við getum séð fjölda ferðamanna þróast gagnvart íslensku samfélagi þannig að það sé jafnvægi og sjálfbærnisviðmiðum sé náð.“
Hann segir að þrír meginþættir verði kannaðir, efnahagsleg þolmörk, umhverfisleg- og náttúruleg þolmörk og svo félagsleg þolmörk. Óskar segir að ekki hafi verið ráðist í svona úttekt áður á landsvísu.
„Nei væntanlega hefur ekki verið unnið svona verkefni á landsvísu. Það hefur verið unnið svona svæðisbundið á ýmsum stöðum í heiminum en aldrei tekið á landsvísu áður.“