Konan er sögð hafa heitið Nasim Aghdam og á að hafa verið 39 ára gömul. Lögreglan rannsakar enn hvað vakti fyrir henni en ekkert bendir til þess á þessari stundu að hún hafi þekkt fórnarlömb sín. Karlmaður á fertugsaldri er sagður vera alvarlega slasaður en tvær konur um þrítugt eru taldar hafa sloppið með smávægileg meiðsl.
Á vefsíðu sinni hafði Aghdam gagnrýnt Youtube nokkuð harðlega fyrir ritskoðunartilburði. Þannig hafi hún reynt að hlaða upp myndböndum sem ýmist voru tekin út eða lokað fyrir þau með einhverjum hætti. Að hennar sögn gerði Youtube upp á milli notenda sinna sem hefðu ekki allir jafna möguleika á frægð og frama á myndbandavefsíðunni.
Youtube hefur nú eytt aðgangi hennar á síðunni. Öðrum samfélagsmiðlareikningum hennar hefur einnig verið lokað.
Sjá einnig: Skotum hleypt af við höfuðstöðvar Youtube
Upphaflega var greint frá því að Aghdam hafi skotið kærastann sinn í gærkvöldi en þær fregnir voru fljótt dregnar til baka. Árásin átti sér stað um hádegisbil að staðartíma og voru fjölmargir starfsmenn Youtube að snæða hádegisverð þegar Aghdam hóf skothríðina.
Sérstaka athygli vekur að árásarmaður gærdagsins hafi verið kvenkyns. Rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar á 160 skotárásum sem þessum á árunum 2000 til 2013 bendir til þess að aðeins 6 byssumannanna hafi verið konur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti þakkaði lögreglumönnum fyrir vel unnin störf á Twitter-síðu sinni eftir árásina.
Was just briefed on the shooting at YouTube's HQ in San Bruno, California. Our thoughts and prayers are with everybody involved. Thank you to our phenomenal Law Enforcement Officers and First Responders that are currently on the scene.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 3, 2018