Skoðun

Skilvirkara Ísland

Sigurður Hannesson skrifar
Það er virðingarvert að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa fyrir samfélagið. Nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum er óskað til hamingju með kjörið og með fylgja óskir um velfarnað í störfum. Mikilvæg verkefni bíða, ekki síst á sviði húsnæðis- og samgöngumála. Stjórnsýsla þarf að vera skilvirkari, afgreiðsla mála skjót og málefnaleg til að draga úr óþarfa kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu. Breyta þarf skipulagi þannig að fjöldi íbúða verði í takt við vænta fólksfjölgun og leita þarf leiða, ekki síst snjallra lausna svo umferð gangi greiðlega.

Það kemur ekki á óvart að húsnæðis- og samgöngumál hafi verið kjósendum í sveitarstjórnarkosningum hugleikin. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga um 70 þúsund ef marka má spá sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Því fylgir umtalsverð uppbygging íbúðarhúsnæðis en skipulag gerir enn ekki ráð fyrir öllum þessum fjölda íbúða. Hljóð og mynd fara því ekki saman. Skortur á húsnæði hefur þrýst verði upp þannig að erfiðara er að komast inn á markaðinn og leiguverð hefur hækkað skarpt. Aukin umferð hefur leitt til þess að ferðatími á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um allt að 40% á fimm árum. Valið stendur þannig á milli dýrrar íbúðar miðsvæðis eða umferðartafa.

Stjórnsýsla sveitarfélaga í þessum málum er ekki eins og best verður á kosið og er frægt þegar Mathöllin á Hlemmi var opnuð ári of seint þar sem Reykjavíkurborg átti erfitt með að fá tilskilin leyfi hjá sjálfri sér. Það bætir svo gráu ofan á svart að öryggisventillinn virkar ekki. Afgreiðsla úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála tefst langt umfram lögboðin mörk. Hefur ESA séð ástæðu til að setja ofan í við stjórnvöld vegna þessa og krafist úrbóta.

Ríkið þarf að einfalda stjórnsýsluna. Flutningur húsnæðismála og byggingarmála yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þannig að úr verði öflugt innviðaráðuneyti væri gott fyrsta skref. Einföldun, aukin skilvirkni og breytt skipulag eru fyrstu skref í átt að þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×