Kanadíski leikarinn Daniel Pilon lést úr krabbameini fyrr í vikunni, 77 ára að aldri. Hann er einna þekktastur fyrir að fara með hlutverk glæpamannsins Naldo Marchetta í þáttunum Dallas.
Umboðsmaður Pilon staðfesti í samtali við Hollywood Reporter fyrr í dag að Pilon hefði andast á þriðjudaginn.
Pilon fæddist í Montreal og var á hátindi ferils síns á áttunda og níunda áratugnum. Fyrsta hlutverk hans var í kvikmynd Gilles Carle, Le viol d’une jeune fille douce, frá árinu 1968.
Persónan Naldo Marchetta í Dallas var um tíma maki Jennu Wade, sem Pricilla Presley túlkaði meðal annarra. Jenna hafði áður verið í sambandi með Bobby Ewing sleit eftirminnilega sambandinu á brúðkaupsdeginum og hljóp á brott og giftist hinum ítalska Naldo.
Pilon fór einnig með hlutverk í öðrum sápuóperum, meðal annars Days of Our Lives og Leiðarljósi sem Íslendingar þekkja vel. Pilon fór stuttlega með hlutverk Alan Spaulding í Leiðarljós-þáttunum.
Leikari úr Dallas og Leiðarljósi látinn
Atli Ísleifsson skrifar
