Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að sækja eigi foringja í her Myanmar til saka fyrir glæpi gegn mannkyninu.
Samtökin hafa gefið út skýrslu sem þau segja sanna glæpi hersins gegn minnihlutahópi Róhingja í Myanmar. Í skýrslunni, sem ber heitið „Við munum eyðileggja allt,“ kemur fram að hermenn hafi ofsótt Róhingja í þorpum þeirra, nauðgað þeim, pyntað og drepið.
„Þjóðernishreinsunum á Róhingjum var náð með stöðugri og skipulagðri aðför að þeim þar sem her Myanmar tóku þúsundir Róhingja af lífi án dóms og laga, þar á meðal ung börn,“ segir í skýrslu Amnesty.
Víðtæk og skipulögð árás gegn Róhingjum
Herinn hafi beitt kynferðisofbeldi, pyntingum og brennt markaði og ræktarlönd svo Róhingjar neyddust til að flýja heimkynni sín.
„Þessir glæpir jafngilda glæpum gegn mannkyninu samkvæmt alþjóðalögum, þar sem glæpirnir voru framdir sem hluti af víðtækri og skipulagðri árás gegn Róhingjum.“
Herinn í Myanmar hefur ekki brugðist við skýrslunni enn sem komið, að því er segir í frétt BBC, en hefur hingað til alltaf neitað ásökunum um þjóðernishreinsanir og að hafa beitt miklu herafli gegn Róhingjum.

700 þúsund Róhingjar flúið til Bangladess
Forsaga málsins er sú að í ágúst 2017 réðust uppreisnarmenn Róhingja á nokkrar lögreglustöðvar í Rakhine-héraðinu í Myanmar.
Her landsins svaraði þessum árásum af mikilli hörku í aðgerðum sem sagt var að beint væri gegn uppreisnarmönnunum.
Aðgerðir hersins urðu til að þúsundir Róhingja þurftu að flýja heimili sín þar sem þorp þeirra voru brennd til grunna.
Um 700 þúsund Róhingjar hafa flúið til Bangladess þar sem þeir búa nú í flóttamannabúðum.

Tóku meira en 400 viðtöl við gerð skýrslunnar
Amnesty International segja að þau geti sannað að herinn í Myanmar hafi verið byrjaður að undirbúa árásir gegn Róhingjum áður en uppreisnarmennirnir gerðu árásir á lögregluna í ágúst í fyrra.
Skýrslan er byggð á meira en 400 viðtölum sem tekin voru í Myanmar og Bangladess, gervihnattamyndum, réttarmeinafræðilegum greiningum og leynilegum herskjölum.
Róhingjar eru minnihlutahópur í Myanmar og er stærsti hópur múslima í landinu.
Stjórnvöld í Myanmar sjá þá sem ólöglega innflytjendur frá Bangladess og neita þeim um ríkisborgararétt í landinu. Þá er fyrirlitning í garð Róhingja útbreidd á meðal almennings í Myanmar.
Áður en ofsóknir gegn þeim hófust bjuggu um milljón Róhingjar í Myanmar, flestir í Rakhine-héraði.