Lochte á 12 verðlaun frá Ólympíuleikum og er næst sigursælasti sundkappi Bandaríkjanna á eftir Michael Phelps. Hann hlaut bannið fyrir að þyggja næringu í æð.
Hinn 33 ára Lochte var ekki að nota nein ólögleg lyf en samkvæmt reglum alþjóðalyfjaeftirlitsins þá mega íþróttamenn ekki fá æðarlegg nema um innlögn á sjúkrahús sé að ræða eða búið að sækja um sérstaka undanþágu fyrir því, sem Lochte gerði ekki.

„Reglur eru reglur og ég braut þær. Ég var hins vegar ekki að taka nein lyf sem voru bönnuð og vona að aðrir íþróttamenn læri af mistökum mínum,“ sagði Lochte.
Þetta er ekki í fyrsta skipti á ferlinum sem Lochte fer í bann því hann hlaut 10 mánaða bann eftir Ólympíuleikana í Rio fyrir tveimur árum. Þá sagðist hann hafa verið rændur á bensínstöð í Brasilíu en öryggismyndavélar sýndu að hann og félagar hans unnu skemmdarverk á bensínstöðinni.