UFC heimsótti Hamburg í Þýskalandi fyrr í kvöld. Anthony Smith fór létt með goðsögnina Mauricio ‘Shogun’ Rua í aðalbardaga kvöldsins og stimplaði sig vel inn í léttþungavigtina.
Fyrir bardagann var hinn 36 ára gamli Shogun Rua á þriggja bardaga sigurgöngu. Upphaflega átti hann að mæta Volkan Oezdemir en þegar Oezdemir gat ekki barist á kvöldinu kom Anthony Smith inn með skömmum fyrirvara.
Það tók Smith aðeins 90 sekúndur að rota goðsögnina Shogun Rua. Smith var ekki í teljandi vandræðum með Shogun og kláraði hann með olnboga og höggum strax í 1. lotu. Smith nýtur þess greinilega að berjast við gamlar goðsagnir en í júní rotaði hann Rashad Evans eftir aðeins 53 sekúndur.
Eftir bardagann kvaðst Smith vilja mæta Alexander Gustafsson á UFC 227 eftir tæpar tvær vikur en Gustafsson er sem stendur án andstæðings. Það yrði þriðji bardagi Smith á þremur mánuðum en heimildir herma að Gustafsson sé meiddur og geti ekki barist eftir allt saman.
Bardagakvöldið var á heildina litið ekkert sérstaklega skemmtilegt en öll úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta hér.
Anthony Smith fór illa með Shogun

Tengdar fréttir

Sannfærandi sigur Shogun gæti mögulega tryggt titilbardaga
UFC er með bardagakvöld í Hamburg í dag þar sem aðalbardagi kvöldsins gæti óvænt skipað veigamikið hlutverk í léttþungavigtinni.