Útsendari TMZ-síðunnar hittu á Conor McGregor í Central Park í New York og þar var kappinn kokhraustur og talaði um komandi bardaga sinn við Khabib.
Það er búist við að bardaginn fari fram í október í Las Vegas.
Conor McGregor hefur ekki barist í átthyrningnum síðan árið 2016 en hann keppti síðast í hnefaleikum á móti Floyd Mayweather í fyrra.
Síðasti UFC-bardagi Conor McGregor var á móti Eddie Alvarez í nóvember 2016 en Conor vann hann á rothöggi í annarri lotu. Conor varð þá tvöfaldur heimsmeistari en hefur ekki barist í MMA síðan þá.
Conor McGregor montaði sig af því í viðtalinu við TMZ að hann væri þegar kominn í bardagaform en hann var þarna að enda æfingar sínar í New York. Það má sjá hann æfa í Central Park hér fyrir neðan.
Khabib Nurmagomedov er 29 ára Rússi sem hefur unnið alla 26 bardaga sína en sá síðasti var á móti Al Iaquinta í apríl síðastliðnum. Nurmagomedov er 10-0 í bardögum innan UFC.
Conor McGregor hefur unnið 21 af 24 bardögum sínum en hann tapaði síðast á móti Nate Diaz 5. mars 2016 sem er eina tapið hans í bardaga innan UFC.