Að minnsta kosti 39 fórust, þar af tólf börn, í sprengingu í bænum Sarmada í norðvesturhluta Sýrlands í gær. Búist er við að tala látinna sé líkleg til að hækka.
Ekki er vitað hvað orsakaði sprenginguna en hún jafnaði hús í bænum við jörðu. Talið er að uppreisnarmenn og fjölskyldur þeirra hafi leitað skjóls í húsunum.
Sarmada er í Idlib-héraði en héraðið er síðasta stóra landsvæðið sem enn er á valdi uppreisnarmanna. Undanfarna mánuði hefur sýrlenski stjórnarherinn, dyggilega studdur af Rússum og Írönum, sótt hart fram gegn þeim uppreisnarmönnum og öfgahópum sem enn eru starfræktir.
