Upplýsingafulltrúi Wow-air segir að langt sé síðan ákveðið var að bjóða upp á tilboð á flugferðum flugfélagsins. Þannig sé ekki um að ræða viðbrögð við fjárhagsstöðu fyrirtækisins, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu.
„Við erum reglulega með tilboð, þetta er hausttilboð sem við höfum eiginlega alltaf verið með. Svona tilboð eru mjög algeng hjá erlendum flugfélögum,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow-air í samtali við Vísi.
Aðspurð segir Svanhvít því ekki um að ræða einhvers konar skyndiviðbrögð vegna fjárhagsstöðu Wow-air.
„Þetta er söluaðgerð sem var staðfest fyrir mörgum mánuðum síðan.“
Sjá einnig: Skúli stendur keikur
Þá bendir Svanhvít á að tilboðið gildi ekki aðeins á Íslandi heldur sé það í boði á flestöllum erlendum mörkuðum Wow-air, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Aðspurð segir hún að viðskiptavinir flugfélagsins hafi tekið afar vel í tilboðin.
„Salan gengur náttúrulega bara frábærlega þar sem mjög margir fjölmiðlar hafa fjallað um tilboðin.“
Í lok síðasta mánaðar var réttur farþega tekinn ítarlega fyrir í kvöldfréttum Stöðvar 2, komi til þess að flugferðirnar verði ekki farnar. Þar kom fram að réttur korthafa varðandi endurgreiðslu sé mjög sterkur þegar um óafhenta vöru eða þjónustu er að ræða, líkt og þegar flug fellur niður. Var umfjöllunin sérstaklega sett í samhengi við greiðslustöðvun flugfélaga og fjárhagsvanda Wow-air.
Wow-air tapaði 4,8 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu júlí 2017 til júlí 2018 og hyggur félagið á milljarða skuldabréfaútboð á næstu vikum. Afsláttur á flugferðum félagsins gildir bæði til Evrópu og Norður-Ameríku og geta viðskiptavinir nýtt sér hann dagana 23.-27. ágúst.

