Eddi Gomes skoraði sigurmarkið upp úr hornspyrnu í uppbótartíma leiksins.
Sérfræðingar Pepsimarkanna á Stöð 2 Sport fóru vel yfir markið í uppgjörsþætti 21. umferðar.
„Markmaðurinn Gunnar, Færeyingurinn, kom upp og olli usla til þess að klára þetta. Eins og leikurinn var þá var þetta sanngjarnt í heildina að FH vann þennan leik,“ sagði Þorvaldur Örlygsson.
Sérfræðingarnir fóru vel yfir öll atvik í aðdraganda marksins og komust að því að markið væri fullkomlega löglegt þrátt fyrir að Anton Ari Einarsson, markmaður Vals, hafi legið eftir í teignum eftir að hafa reynt við boltann gegn Guðmundi Kristjánssyni, leikmanni FH.
„Þeir hoppa báðir upp, meira að segja er Guðmundur á undan honum upp í boltann. Hann er kominn með puttann á boltann en nær aldrei höndum á hann, svo þetta er löglegt mark,“ sagði Þorvaldur.
Reynir Leósson sagði markmanninn hafa getað gert betur í þessu atviki.
„Mér finnst bara vanta kraft og styrk í Anton Ara að ganga frá þessu augnabliki,“ sagði Reynir.
„Hann er að reyna að grípa boltann en leikurinn er búinn ef hann bara fer og kýlir þennan bolta. Hann var kominn með höndina það hátt, en hann var aldrei að fara að ná að grípa hann.“
„Hann var aðeins of linur fyrir minn smekk í þessu atviki og það kostaði þá tapið,“ sagði Reynir.
Umræðuna og markið má sjá í klippunni hér að neðan.