Myndin var birt um miðjan október en á henni mátti sjá flugþjóna- og freyjur Ryanair liggjandi á gólfinu á flugvelli í Malaga á Spáni. Áhöfnin var sögð föst á flugvellinum vegna veðurs og var Ryanair gagnrýnt fyrir að veita starfsfólki sínu ekki betri aðbúnað.
Eftir að myndin fór í dreifingu birti Ryanair myndband úr öryggismyndavélum á flugvellinum, sem renndi stoðum undir fyrri fullyrðingar félagsins þess efnis að myndin væri sviðsett.
Ryanair exposes fake photo of cabin crew sleeping in crew room. Watch video here: pic.twitter.com/tzTn6EHsKH
— Ryanair (@Ryanair) October 17, 2018
Breska ríkisútvarpið BBC hafði eftir talsmanni félagsins í dag að áhafnarmeðlimirnir hafi verið reknir fyrir vítavert misferli í starfi. Þá hafi myndin skaðað ímynd flugfélagsins verulega.
Netverjar voru margir ekki tilbúnir að fyrirgefa flugfélaginu eftir að myndbandið úr öryggismyndavélum var birt. Jim Atkinsson, sá sem fyrstur birti umrædda ljósmynd á Twitter, var fljótur að svara tísti Ryanair. Í svari sínu sagði hann augljóst að áhafnarmeðlimirnir hefðu verið strandaglópar á flugvellinum yfir nóttina og að Ryanair hafi ekki reynt að létta þeim lífið. Enn aðrir sögðu að myndbandið sýndi fram á að Ryanair hefði brugðist enn fleiri starfsmönnum sínum en upphaflega var talið.