Íslandsbanki hafnaði nýverið tillögu Gamla Byrs, sem lauk nauðasamningum í janúar árið 2016, að sáttum í ágreiningsmáli um virði útlánasafns sem bankinn keypti af Byr og ríkissjóði haustið 2011. Gamli Byr taldi jafnframt gagntilboð bankans, sem var það sama og bankinn lagði fram í byrjun ársins, óviðunandi.
Fram kemur í bréfi sem stjórn Gamla Byrs sendi kröfuhöfum 7. nóvember síðastliðinn og Markaðurinn hefur undir höndum að félagið hafi – í kjölfar uppbyggilegra viðræðna við fulltrúa Íslandsbanka – gert bankanum formlegt sáttatilboð til þess að binda enda á deiluna. Bankinn hafi í fyrstu brugðist jákvætt við tilboðinu en síðar hafnað því og lagt fram sama gagntilboð og í janúar síðastliðnum.
Samkvæmt heimildum Markaðarins var tilboð Gamla Byrs lítillega hærra en gert var ráð fyrir í óformlegum viðræðum deilenda fyrir um ári. Var þá áætlað að ríkið myndi fá – á grundvelli sáttatillögu Byrs – um þrjá milljarða króna í sinn hlut. Slík greiðsla hefði þá verið þríþætt, í formi tveggja milljarða króna stöuðugleikaframlags, lausnargjalds til Íslandsbanka og útgreiðslu til bankans sem kröfuhafa í slitabúinu, en bankinn á um átta prósent krafna í Gamla Byr.
Í áðurnefndu bréfi til kröfuhafa Gamla Byrs segir að þrátt fyrir að enn beri mikið á milli félagsins og Íslandsbanka hafi deilendur heitið því að halda viðræðum áfram.
Gert er ráð fyrir að frávísunarkrafa Gamla Byrs í skaðabótamáli Íslandsbanka á hendur félaginu verði tekin fyrir í héraðsdómi á morgun. Á sama tíma er búist við því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna, sem bankinn fékk til þess að meta meint fjártjón sitt, liggi fyrir en hátt í fimm ár eru síðan matsmennirnir voru skipaðir.
Íslandsbanki hafnaði sáttatilboði Gamla Byrs
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Starfsfólk truflað á tveggja mínútna fresti
Atvinnulíf

Kalifornía fjórða öflugasta efnahagsríki heims
Viðskipti erlent

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent

Ísfélagið greiðir út tveggja milljarða arð
Viðskipti innlent

Gefur eftir í tollastríði við Kína
Viðskipti erlent



Notendur þurfi að bregðast við vilji þeir ekki að gögn verði notuð
Viðskipti erlent

Kaupsamningur undirritaður um Grósku
Viðskipti innlent

Ummæli Trumps um „meiriháttar lúser“ leggjast illa í markaðinn
Viðskipti erlent