Tilefnið er umræða um verk eftir Banksy sem Jón þáði frá Banksy þá er hann var borgarstjóri eftir að hafa falast sérstaklega eftir því. Verkið hékk samkvæmt skilyrðum hins dularfulla listamanns á skrifstofu borgarstjóra í tíð Jóns en hann hafði það svo heim með sér. Skiptar skoðanir eru um hvort um sé að ræða persónulega gjöf til Jóns eða hvort myndin heyri til borgarstjóraembættisins sem slíks og þar með borgarbúum öllum. Og þá er málum blandið hvort um sé að ræða einstakt verk eða fjöldaframleitt plakat. Vísir hefur fjallað ítarlega um málið.

Jón breytti hinum rykföllnu og mygluðu stjórnmálum
„Þetta var alveg rakið. Verkið heitir Blómagrýtarinn hans Gnarr,“ segir Sara og fer ekki leynt með aðdáun sína á bæði Banksy sem og Jóni. „Hann hefur veitt mér innblástur, gleðiinnblástur, alvöru „hard-core“ innblástur. Hann þorði að „grýta“ sjálfum sér og hugsjónum sínum inn í rykfallna, óupplýsta og myglaða kima stjórnmálanna með listina sína og sérstæðu og einstöku hæfileika sína eina að „vopni“ eins og blóm.“Sara skrifaði færslu á Facebooksíðu sína sem sjá má nánar hér neðar þar sem hún lýsir nánar því hvernig verkið er til komið.

„Nei, mér finnst umræðan ekki fáránleg, mér finnst hún í raun mjög þörf en þá einna helst út frá því hvernig samfélagið umgengst list. Sem stjórnmálamaður nálgast ég þetta auðvitað 100 prósent út frá lagabókstaf þessa lands. En sem listamaður á töluvert annan hátt,“ segir Sara sem telur Jón Gnarr á margan hátt vera Banksy Íslands.
Snillingurinn Jón
„Hann er snillingur sem að tókst að brjóta niður fyrirframgefna múranna á milli stjórnmálanna með list sinni, með snilligáfu sinni rétt eins og Banksy. Jón setti fram nýtt form stjórnmála á Íslandi. Hann „grýtti“ sér sjálfum inn í bilið á milli listar og stjórnmála og óx í gjánni. Hann útmáði mörkin á milli raunveruleikans og listarinnar með persónusköpun sem fangaði þjóðareinkenni sem við „cringe-uðum“ yfir þegar að hann stillti upp þeim spegli fyrir framan okkur.“
Umræðan mikilvæg alveg óvart
„Slíkar fyrirmyndir eru ómetanlegar fyrir okkur hin, okkur öll. En sér í lagi okkur listamennina sem að leitumst eftir því að reyna að knýja fram breytingar með listsköpun og með því að nota það sem verkfæri. Jón Gnarr máði út mörkin á milli listarinnar og pólitíkurinnar. Eins og Banksy. Og fangaði þannig fyrst athygli Íslenskra kjósenda en svo einnig heimsins.“Sara segir umræðuna undanfarna daga þarfa en hún sé það í raun óvart. „Það sorglega þó er hún kom upp um þetta gegnumgangandi vantraust í íslensku samfélagi - vantraust á stjórnmálin og allt stjórnmálafólk - en líka vantraust og tortryggni gagnvart náunganum.“

„Umræðan er írónísk fyrir margra hluta sakir. Listamenn eru jaðarsettur hópur sem eins og stjórnmálafólk teljast sennilega til hötuðustu stétta landsins. Listamenn undir yfirskriftinni að þeir séu húðlatar samfélagsblóðsugur. En svo gerist eitthvað svona eins og með Banksy- verkið og þá vilja allir komast að og öllum finnst þeir eiga tilkall til þess. Afurð jaðarsetta hópsins verður súper mainstream og súper eftirsótt.“
Sara er að leggja lokahönd á verk sitt og mun setja sig í samband við Jón Gnarr í kvöld með þá spurn hvort hann vilji ekki þiggja verkið?
