Suður-Kóreubúinn Kim Jong-yang bar óvænt sigur úr býtum í forsetakjöri alþjóðalögreglunnar Interpol á ársþingi lögreglunnar í Dubai. Flestir höfðu talið líklegt að mótframbjóðandi hans, Rússinn Alexander Prokopchuk, yrði kjörinn forseti. BBC greinir frá.
Fulltrúar 194 aðildaþjóða Interpol komu saman í Dubai til þess að kjósa nýjan forseta eftir hvarf sitjandi forseta, Kínverjans Meng Hongwei. Hann hafði verið týndur í nokkrar vikur eftir ferð til heimalands síns í september. Skömmu síðar tilkynntu yfirvöld þar í landi að Meng væri í haldi lögreglu vegna ásakana um að hann hafi þegið mútur.
Prokopchuk þótti sigurstranglegastur en hann hafði áður verið yfirmaður Interpol í Moskvu. Þar var hann umdeildur og sakaður um að misnota kerfi Interpol til þess að lýsa eftir glæpamönnum á alþjóðavísu, allt í þágu Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta.
Höfðu Bretar og Bandaríkjamenn talsverðar áhyggjur af mögulegu kjöri Rússans og því líklegt að ríkin tvö hafi stutt forsetakjör Kim, en hann hefur verið starfandi forseti Interpol frá hvarfi Meng. Kim mun gegna embætti næstu tvö árin, eða út kjörtímabil Meng.
Óvænt tap Rússa í forsetakjöri Interpol

Tengdar fréttir

Forseti Interpol týndur eftir ferð til Kína
Lögregla í Frakklandi hefur hafið rannsókn á hvarfinu.

Fyrrverandi forseti Interpol sakaður um spillingu og „aðra glæpi“
Hann er því kominn í hóp margra framámanna í kínversku þjóðlífi sem horfið hafa sporlaust síðustu mánuði en í þeim hópi eru stjórnmálamenn, milljarðamæringar og kvikmyndastjörnur.

Gagnrýnendur Kremlarstjórnar hafa áhyggjur af verðandi forseta Interpol
Bresk yfirvöld eru sögð telja að rússneskur undirhershöfðingi verði kosinn forseti alþjóðalögreglunnar Interpol á allsherjarþingi hennar sem hófst í dag.