Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, segir að ekki muni takast að ná samkomulagi um nýja ríkisstjórn fyrir jól líkt og vonir stóðu til. „Mér þykir það miður,“ sagði Norlén á fréttamannafundi í morgun.
Þingforsetinn sagðist hafa átt samtöl við leiðtoga flokka á þingi á síðustu dögum og í kjölfarið ákveðið að næsta atkvæðagreiðsla fari fram þann 16. janúar. Ekki séljóst hver verði tilnefndur, þó að langlíklegast sé að það verði annað hvort Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, eða Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra.
Takist sænska þinginu ekki að ná saman um forsætisráðherra í fjórum tilraunum þarf að boða til nýrra kosninga. Atkvæðagreiðslan 16. janúar verður sú þriðja í röðinni en áður hefur þingið hafnað bæði Kristersson og Löfven.
Þingkosningar fóru fram í Svíþjóð þann 9. september síðastliðinn og hefur ekkert gengið að mynda stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þings.
Norlén sagði að ábyrgðin hvíli helst á herðum þeirra Kristersson og Löfven, sem báðir sækjast eftir því að leiða ríkisstjórn. Norlén hyggst ræða við þá í síma 28. desember og aftur 4. janúar. Þá hyggst hann ræða við þá þann 10. janúar og í kjölfarið tilnefna annan þeirra sem atkvæði yrðu greidd um þann 16. janúar. Hann segir nauðsynlegt fyrir flokkana að gera málamiðlanir til að hægt verði að tryggja að ný ríkisstjórn taki við.
Norlén sagði enn fremur nýjar kosningar muni fara fram þann 21. apríl, takist meirihluta þings ekki að ná saman um nýjan forsætisráðherra.
