Sumir sjá teikn um að viðræður ríkjanna á COP24-ráðstefnunni í Katowice í Póllandi gangi illa í því að Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, hafi gert sér aðra ferð þangað í dag til að knýja á um hún verði leidd farsællega til lykta, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Aðalverkefni fundarins nú er að samþykkja reglur um hvernig aðildarríki Parísarsamkomulagsins halda utan um losun sína á gróðurhúsalofttegundum og aðgerðir til að draga úr henni. Nokkur ríki eru sögð hafa lofað því að herða loftslagsaðgerðir sínar fyrir árið 2020.
Guterres lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að auka metnaðinn. Nýlega gaf milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar út vísindaskýrslu þar sem fram kom að ríki heims þyrftu að margfalda aðgerðir sínar ef þau ætluðu að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C.
„Að sóa þessu tækifæri myndi skaða síðasta og besta tækifæri okkar til að koma í veg fyrir óðaloftslagsbreytingar. Það væri ekki aðeins siðlaust, það væri stórskaðlegt,“ sagði Guterres í ræðu á ráðstefnunni og hvatti fulltrúa ríkjanna til að miðla málum og hraða viðræðunum.
Varaði framkvæmdastjórinn við því að enn væru stór pólitíska mál óleyst á fundinum.
Olíuríkin sett strik í reikninginn
Bandaríkin, Rússland, Sádi-Arabía og Kúveit hafa rofið samstöðu ríkjanna í Póllandi en þau neituðu meðal annars að fallast á orðalag í ályktun um vísindaskýrsluna um 1,5°C-markmiðið.Á móti kemur að Evrópusambandið ásamt Kanada, Bretlandi, Noregi ásamt fjölda annarra ríkja segjast ætla að þrýsta á um að landsmarkmið þeirra verði hert enn frá því sem þau hafa boðað. Ísland tekur þátt í sameiginlegu markmiði ESB og Noregs um 40% samdrátt í losun fyrir 2030.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, lýsti því yfir á ráðstefnunni í gær að Ísland ætlaði sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.