Fimm fimmtán ára stúlkur fórust í eldsvoða í borginni Kozalin í Póllandi í kvöld. Eldurinn kom upp í svokölluðu „escape room“, eða flóttaherbergi upp á íslensku, þar sem stúlkurnar voru samankomnar við afmælisfögnuð.
Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir að karlmaður á þrítugsaldri hafi einnig verið fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús.
Eldsupptök eru enn ókunn en strax verður ráðist í ítarlega úttekt á eldvörnum í sambærilegum flóttaherbergjum víðsvegar um Pólland. Í herbergjunum, sem vinsæl eru víða um heim, felst eins konar flóttaleikur þar sem vinahópar leysa þrautir og freista þess að komast út innan ákveðins tímaramma.
Fimm unglingsstúlkur í afmælisfögnuði fórust í eldsvoða
Kristín Ólafsdóttir skrifar
