Angela Merkel, kanslari Þýskalands, undirstrikaði mikilvægi þess að berjast gegn gyðingaandúð, kynþáttahyggju og hatri í ávarpi sem hún sendi frá sér í dag í aðdraganda alþjóðlegs minningardags Helfararinnar. Um 74 ár eru liðin frá lokum Helfararinnar.
Merkel sagði að það væri á ábyrgð hvers og eins að leggja sitt á vogaskálarnar til að byggja fordómalaust samfélag laust við útlendinga-og gyðingaandúð.
Hún sagði að ungt fólk sem sé að vaxa úr grasi í dag verði að gera sér grein fyrir þeim grimmdarverkum sem forfeður þeirra voru færir um að fremja.
„Við verðum að vinna markvisst að því að tryggja að slíkt geti aldrei aftur gerst.“
Merkel kallaði eftir nýjum leiðum til að minnast gyðingaofsókna vegna þess að þeim fari ört fækkandi sem urðu vitni að Helförinni. Það sé ekki síst mikilvægt í ljósi uppgangs þjóðernispopúlisma í álfunni.
Hún segist vera miður sín vegna þeirrar gyðingaandúðar sem hefur borið á í þýsku samfélagi.
Talið er að sex milljónir gyðinga víðsvegar um Evrópu hafi verið myrtir á árunum 1933-1945 undir stjórn þýskra Nasista.
Ungt fólk verði að gera sér grein fyrir grimmdarverkum forfeðra sinna
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar

Mest lesið






Af Alþingi til Fjallabyggðar
Innlent


Jónas Ingimundarson er látinn
Innlent


Steindór Andersen er látinn
Innlent