Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, er afar ósáttur við stjórn KSÍ. Hann segir stjórnina hafa brugðist er Aleksandar Ceferin, forseti UEFA, lýsti yfir stuðningi við Guðna Bergsson í aðdraganda formannskosninga KSÍ.
Aleksandar Ceferin sagði í ítarlegu viðtali við íþróttadeild Sýn að hann litist vel á Guðna sem formann og sagði að hann væri góður kostur. Samskipti UEFA og KSÍ hefðu aldrei verið betri.
Margir undruðu sig á þessu en Jón Rúnar tók til máls á ársþingi KSÍ í dag þar sem einmitt er kosið um formannsstólinn. Um hann berjast þeir Guðni Bergsson og Geir Þorsteinsson.
„Ég beið í tvo daga eftir því hvort að stjórnin, þeir sem að verja okkar mál ef á okkur er sótt, myndu gera eitthvað. Ég beið við símann hvort eitthvað kæmi fram, en það gerðist ekkert,“ sagði Jón Rúnar í pontu á þinginu í dag en Eiríkur Stefán Ásgeirsson fylgist með þinginu. Jón Rúnar hafði svo samband við nokkra stjórnarmenn KSÍ.
„Það sem mér finnst best í þessu er að menn settu þetta svo sterkt í samband við fyrirhugaðar kosningar að það væri í raun ekki hægt að gera neitt. Ég talaði líka við félaga mína í ÍTF, þar var líka sama uppi á teningnum - að bregðast við væri hægt að túlka sem stuðningsyfirlýsingu við annan frambjóðanda. Það hefur ekkert með það að gera í mínum huga, ekki neitt.“
„Það er óþolandi að okkar stjórn, sem á að passa upp á svona hluti, skuli ekki hafa brugðist við. Þögn er sama og samþykki.“
„Ég var líka hissa á Guðna Bergssyni, þegar hann var í sjónvarpsviðtali - þar var hægt að fordæma þetta þó svo að hann hefði getað þakkað stuðninginn.“
„En hvers konar heigulsháttur er þetta, í stærstu hreyfingu landsins, að afskipti utan frá eru samþykkt. Ég vildi koma þessu fram því á morgun er strætóinn farinn og þá þýðir ekkert að segja að ég hefði átt að gera þetta. Ég vildi koma þessu fram frá mínu brjósti, svona líður mér sem félaga í þessum ofsalega kröftugu samtökum. En mér líður illa þegar mér finnst vörnina hafa svikið algerlega.“
Hægt er að fylgjast með kosningunum í fréttinni hér að neðan.
