Saksóknarar í Brasilíu rannsaka nú son Jairs Bolsonaro forseta vegna gruns um peningaþvætti. Rannsóknin beinist meðal annars að tveimur lúxusíbúðum sem Flavio Bolsonaro keypti í Ríó de Janeiro.
Flavio Bolsonaro er öldungadeildarþingmaður á brasilíska þinginu. Saksóknarar í Ríó de Janeiro hafa reynt að fá Bolsonaro til skýrslutöku vegna ýmissa spillingarmála en hann hefur hafnað því að hitta þá. Rannsóknin nú er aftur á móti á vegum alríkissaksóknara sem Bolsonaro getur ekki vikið sér undan að ræða við. Ásakanirnar þykja þær vandræðalegustu fyrir Bolsonaro forseta sem bauð sig fram sem sérstakan baráttumann gegn spillingu.
Reuters-fréttastofan segir að málið tengist því hvernig Bolsonaro hafi komist í álnir á óútskýrðan hátt. Talskona Bolsonaro segir hann saklausan og að hann sé fórnarlamb pólitískra ofsókna.
Skammt er síðan hæstiréttur landsins hafnaði kröfu Bolsonaro um að rannsókn á tugum greiðslna hans til fyrrverandi bílstjóra síns yrði stöðvuð. Fjármálaeftirlitið hafði þá fundið tæplega fimmtíu grunsamlegar greiðslur á reikning Bolsonaro í einum mánuði árið 2017.
Athyglin er einnig sögð beinast að fasteignaviðskiptum þingmannsins sem leiddu til þess að eignir hans jukust gríðarlega á árunum 2014 til 2017. Á sama tíma hafi háar fjárhæðir í grunsamlegum greiðslum runnið í gegnum bankareikning bílstjórans.
