Gunnar Nelson mátti sætta sig við tap í kvöld er hann mætti Englendingnum Leon Edwards á UFC bardagakvöldi í London.
Gunnar var kominn á gott skrið eftir sigur á Alex Oliveira í desember en tapið í kvöld var einkar svekkjandi. Edwards vann á dómaraúrskurði en einn dómaranna þriggja úrskurðaði Gunnari reyndar sigurinn.
Mestu munaði um þungt olnbogahögg sem Edwards veitti Gunnari í annarri lotu. Það stórsá á Gunnari eftir höggið en hann náði að klára lotuna og var svo nálægt því að hengja Edwards í þriðju og síðustu lotunni eftir að hafa náð Englendingnum í gólfið.
„Við vorum búnir að horfa á upptökur af Gunnari og sáum að þegar hann fer úr návígi [e. clinch] þá lætur hann hendurnar niður. Þá náði ég honum með olnboganum,“ sagði Edwards eftir bardagann en viðtal við hann má sjá efst í fréttinni, sem og umrætt olnbogahögg.
Edwards telur að hann eigi skilið að mæta þeim sem ber sigur úr býtum úr aðalbardaga kvöldsins í London. Hann hafi sýnt í kvöld að hann sé alhliðabardagamaður.
„Ég get gert þetta allt. Gunnar er einn besti glímumaður deildarinnar en ég vann. Ég er enn bara 27 ára og enn að læra.“
