Aðeins tvær og hálf vika er nú til stefnu þar til Bretland ætlar að ganga úr Evrópusambandinu. Breska þingið greiðir atkvæði um hvort það vilji halda útgöngunni til streitu án samnings í kvöld. Theresa May, forsætisráðherra, hefur lýst því yfir að hún ætli að greiða atkvæði gegn útgöngu án samnings.
Barnier segir að hættan á að Bretar gangi úr sambandinu án samnings hafi aldrei verið meiri en nú eftir að breskir þingmenn felldu útgöngusamninginn í gær. Sambandið geti ekki teygt sig lengra í málamiðlun við bresku ríkisstjórnina.
„Aftur lýsir neðri deild [breska þingsins] því sem hún vill ekki. Nú er aðeins hægt að leysa þetta þrátefli í Bretlandi,“ sagði Barnier á Evrópuþinginu í dag.
Fullyrti hann að samningurinn sem þingmenn höfnuðu í gær sé sá eini sem er í boði.
Fella niður tolla komi til útgöngu án samnings
Atkvæðagreiðslan í breska þinginu um útgöngu án samnings fer fram klukkan 19:00 í kvöld. Hún varðar aðeins útgöngu án samnings 29. mars. Ef þingið hafnað því og samþykkir að fresta útgöngunni í annarri atkvæðagreiðslu á morgun er þannig ekki útilokað að Bretlandi yfirgæfi Evrópusambandið án samnings síðar á þessu ári, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.Breska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að ef til útgöngu án samnings kemur í lok mánaðar þá verði tollar felldir niður á nær allar vörur sem fluttar eru til landsins. Ekki verði sett upp tolla- eða landamæraeftirlit á milli Norður-Írlands og Írlands.
Velji þingið að fresta útgöngunni þurfa öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja að veita Bretum leyfi til þess. Barnier sagði í dag að hann efaðist um tilganginn með því að framlengja viðræður við Breta fram yfir 29. mars, boðaðan útgöngudaginn.